Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:51:05 (3725)

2003-02-11 15:51:05# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:51]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig sagt að ég er sammála hv. þm. að æskilegt væri að þessi úrelding veiðiréttarins færi hratt fram. Ég hef hins vegar talið að ef menn styðjast eingöngu við úreldingarfyrirkomulag sé mönnum svolítið þröngur stakkur skorinn í því að taka veiðiréttindin mjög hratt af þeim sem hafa sett sig í miklar skuldir vegna kaupa á veiðirétti.

En einnig eru til leiðir til að fara hraðar í fyrninguna sem bent hefur verið á og ég ætla ekki að fara yfir hér enda ekki tími til. Ég tel að full ástæða sé til að skoða slíkar leiðir þegar búið er að taka ákvörðun eða einhver ríkisstjórn hefur manndóm í sér til að leysa þetta stórkostlega vandamál sem það er að ekki skuli vera atvinnufrelsi og réttlæti ríkjandi í grundvallaratvinnuvegi okkar, sjávarútveginum.

Og auðvitað er þetta mesta byggðamálið sem við stöndum frammi fyrir, ég get verið sammála hv. þm. um það. Þetta er einfaldlega þannig að ef þeir sem eiga þennan veiðirétt fara úr einu byggðarlagi, þá situr allt fólkið í byggðarlaginu eftir bjargarlaust. Það er enginn möguleiki að stofna til nýrrar útgerðar á grundvelli eigna venjulegs fólks í dag. Og þó menn ættu mikla peninga, þá er glórulaust að gera það. Þannig er nú þetta jaðarverð sem er á veiðiheimildunum.

En ég vil þó segja að auðvitað er hægt að bæta þær hugmyndir sem hér eru. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé sú eina niðurstaða sem hægt er að hafa í öllum tilvikum. Við vildum setja fram nógu glögga, nógu skýra, nógu einfalda leið til þess að fólk skildi hvað við erum að fara. En við erum auðvitað til viðræðu um að útfærslan sé kannski tekin til skoðunar, enda vitum við að það þarf þegar stofnuð verður ríkisstjórn sem vill taka á þessum málum.