Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:55:37 (3727)

2003-02-11 15:55:37# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru mjög áhugaverð viðhorf sem þingmaðurinn setti fram í ræðu sinni og ég fagna því alveg sérstaklega að hann tekur undir með okkur um þau meginatriði sem Samfylkingin setur fram um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég skil hann mjög vel þegar hann talar um aðlögunartímann, vegna þess að ég var þannig sjálf að finna þörfina fyrir að gera breytingarnar hraðari og taka fyrr á. Ég er samt sannfærð um að nú er mikilvægast að gera breytinguna, að gera rétta breytingu og taka á þessu máli, hvort það tekur árinu lengur eða skemur að ná heimildunum til baka til eigenda sinna er ekki meginmálið, heldur hitt að setja þetta í gang og gera breytinguna.

Ég hef líka áhyggjur af því og kom inn á það í ræðu minni að sumir hafa verið að kaupa kvótann, en við erum sannfærð um að þeir aðilar munu hafa talsverða möguleika þegar allt er komið á markað vegna þess að þeir þekkja þetta umhverfi.

En mig langar að drepa á orð hans um að nauðsynlegt væri að koma núv. ríkisstjórn frá. Já, það er stóra málið að koma þessari ríkisstjórn frá í vor. Þetta er ríkisstjórn sérhagsmunanna. Þetta er ríkisstjórnin sem hefur komið því kerfi á sem við erum að gagnrýna og erum sannfærð um að sé mesta réttlætismál í landinu að taka á. Það er þjóðin sem ákveður það hvort hægt verður að koma ríkisstjórninni frá. Og sem betur fer eru það alltaf fleiri og fleiri sem gera sér grein fyrir því að það er líf að loknum Davíð Oddssyni. Ég er alveg sannfærð um að þeir hlutir eiga eftir að gerast á þeim 90 dögum sem fram undan eru til kosninga að líkurnar verða sífellt meiri á því, virðulegi þingmaður, að við getum komið ríkisstjórninni frá í vor.