Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:59:03 (3729)

2003-02-11 15:59:03# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mat okkar í Samfylkingunni að sú niðurstaða sem við höfum komist að sé afskaplega góð niðurstaða. Það er mikilvægast að okkar mati að með þeim tillögum sem hér hafa verið til umræðu og koma fram í frv. er verið að taka á öllum stóru þáttunum í þessu óréttláta fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur flutt gífurlegt fjármagn frá einni hendi til annarrar án þess að nokkur hafi fengið rönd við reist. Við höfum sameinast um þessi meginatriði og það eru þau meginatriði sem okkur finnst skipta máli að koma til skila til þess fólks sem vill að sé tekið á þessum málum.

Mér finnst ekki vera aðalmálið hvort einhver útfærsluatriði þurfi að skoða vegna þess að ef við náum saman um meginatriðin alveg eins og þingflokkur Samfylkingarinnar gerði og fleiri og fleiri aðhyllast þau sjónarmið, þá er nokkuð ljóst að við verðum til þess bær að taka vel á þessu máli þegar við fáum til þess tækifæri.

Ég er alveg sannfærð um, virðulegi forseti, að þetta mál sem er eitt af stóru málunum í íslenskri pólitík og það hvernig Samfylkingin hefur tekið á því er eitt af því sem mun draga fram mismuninn á því hvernig Samfylkingin vill stjórna og hvernig sá stjórnarmeirihluti sem hér hefur verið við völd í átta ár hefur stjórnað, og verður með í að leggja þau lóð á vogarskálarnar sem munu skipta máli í vor og leiða í ljós hverjir munu halda um þessi mál á komandi árum.