Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:13:00 (3731)

2003-02-11 16:13:00# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hægt að svara því. Það liggja fyrir álit lögfræðinga á því að þeir telji, og það er meira að segja innifalið í niðurstöðum dómara, að stjórnvöld geti tekið þennan kvóta til baka. Það má hins vegar velta fyrir sér hversu hratt sé hægt að gera það, hvort skapist skaðabótaréttur ef kvótinn er tekinn mjög hratt af útgerðarmönnum. En auðvitað er hægt að fara hraðar í sakirnar. Það er hægt að gera það með því að útgerðarmenn fái þá bætur í staðinn fyrir þann kvóta sem er tekinn frá þeim og ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að hv. þingmaður hafi kannski ekki munað þetta alveg rétt með lögin um samningsveð. Það eru tvær greinar í þeim lögum. Önnur segir að það sé bannað að veðsetja veiðiheimildir. En svo segir hin að menn megi ekki flytja veiðiheimildir af skipi nema með samþykki veðhafa í skipinu. Þannig fóru stjórnvöld hringferð í þessu máli til þess að reka út úr sér tunguna eða gefa þjóðinni langt nef í enn eitt skiptið.

Mér finnst hins vegar svolítið dapurlegt að hlusta á hv. þingmann segja hér að hann telji sig bókstaflega hafa stutt ríkisstjórn sem sé bara búin að gefa auðlindina endanlega í hendur útgerðarinnar. Mér fannst hv. þm. vera að segja það hérna áðan. Ég er aldeilis alls ekki á þeirri skoðun að stjórnvöld hafi gengið eins langt og hv. þm. lýsti og tel að það sé alveg augljóslega hægt að ganga þessa leið sem við leggjum til. Það er líka hægt að fara hana hraðar með vissum aðferðum.