Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:28:29 (3738)

2003-02-11 16:28:29# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að með framsalsheimildunum opnuðust leiðir sem voru kannski ekki alveg sýnilegar fyrir. Menn fóru að versla mjög grimmt með þessar heimildir fram og til baka og gerðu jafnvel ekkert út sjálfir heldur treystu einvörðungu á leiguna.

Auðvitað er þetta allt mjög vandmeðfarið. Þetta var samt hugsað á sínum tíma til þess að gefa mönnum tækifæri til þess að hámarka ávöxtunina, arðsemina af þessari auðlind. Ég held að þetta hafi alveg verið tilraunarinnar virði en reyndar, eins og með margt annað í kringum kvótakerfið, þá hefur þetta haft alveg feikilega erfið hliðaráhrif. Þessi hliðaráhrif eru mjög erfið og maður verður bara að taka undir það.

Kvótagreifarnir svokölluðu, þeir útgerðarmenn sem hafa fengið þessar heimildir, hafa auðvitað farið eftir þeim reglum sem settar voru. En það sem er að breytast og hefur breyst núna bara á síðustu árum er að þeir menn sem settu upp þessi stóru fyrirtæki --- þetta er nú ekki eldra hjá okkur en það á Íslandi að við þekktum mennina sem reru á árabátunum. En við munum samt eftir þessu. Við þekktum menn sem lifðu við þetta og við sjálfir erum aldir upp á bátatímabili þegar togarar voru að koma til sögunnar. Nú er þetta að þróast þannig að þeir hugsjónamenn sem settu upp útgerðarfyrirtæki í sínu byggðarlagi eru horfnir og við er að taka allt annað umhverfi. Við erum núna að tala um stórgróðafyrirtæki sem hugsa fyrst og fremst um að græða og græða meira og meira. Hugmyndir um byggðir og annað slíkt eru ekki endilega aðalatriðið lengur í hugmyndum þeirra um rekstur fyrirtækja.