Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:45:04 (3740)

2003-02-11 16:45:04# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta hv. þm. þar sem hann talar um að ég bergmáli eitthvað úr stjórnarflokkunum varðandi veðsetninguna. Ég vil bara rifja það upp fyrir þingmanninum að ég var á móti veðsetningunni ásamt einum öðrum hv. þm. Sjálfstfl. og sá þriðji sat hjá þannig að við höfðum sömu áhyggjur af veðsetningunni og hv. þm.

Ég var ekki að segja að þar með væri ég að túlka það sem stjórnarflokkarnir hefðu talið gerast. Það er ekki þannig.

Varðandi erlenda fjárfestingu, ég var ekkert að tala um að erlend fjárfesting væri slæm í sjávarútvegi. Ég var að tala um Evrópusambandið, sem sagt þá þróun sem er að verða í íslenskum sjávarútvegi að útgerðarfyrirtækin eru að verða sífellt færri og við erum að horfa upp á það að þetta verði kannski hálfur tugur fyrirtækja, jafnvel enn færri áður en yfir lýkur, og ég á erfitt með að sjá hvernig því verði nokkurn tíma stjórnað af neinu viti. Ég held að það verði alger einokun í raun sem muni ríkja ef svo heldur fram sem horfir. Þess vegna er ég að velta fyrir mér færum leiðum til að breyta þessu kerfi með einhverju móti. Ég er ekki með neina lausn. Þessi fyrningarleið er ein hugmynd sem menn hafa sett fram. Ég ætla ekki að gera neitt lítið úr henni. Ég held samt að hún taki allt of langan tíma.

Ég held líka að allar breytingar á því sem þarf að gera þegar þar að kemur þurfi auðvitað að gerast í sátt við þessa atvinnugrein í heild sinni. Það verður aldrei hægt að gera þetta einhliða. Þjóðin verður að verða sæmilega sammála um að það sé komið að endimörkum, nú þurfi einhverjar breytingar og um þær breytingar verðum við að ná sátt ef við förum á annað borð af stað með þetta.