Greining lestrarvanda

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 17:11:52 (3745)

2003-02-11 17:11:52# 128. lþ. 76.9 fundur 107. mál: #A greining lestrarvanda# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[17:11]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um greiningu lestrarvanda. Þetta er þskj. 107 og er 107. mál þingsins. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og Kolbrún Halldórsdóttir.

Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands fái sérstakt framlag í fjárlögum að upphæð 30 millj. kr. til að greina lestrarvanda barna, unglinga og fullorðins fólks, veita ráðgjöf um viðbrögð og skipuleggja forvarnir.

Herra forseti. Þessi till. til þál. var lögð fram í haust. Við teljum að a.m.k. 30 millj. kr. sé þörf árlega af fjárlögum ríkisins til að standa undir þessari þjónustu og miðaði þáltill. við að þetta framlag hefði komið til afgreiðslu síðustu fjárlaga. En upphæðin er til viðmiðunar og má ekki lægri vera. Í grg. segir:

,,Kennaraháskóli Íslands rak í u.þ.b. áratug sérstaka stofnun innan sinna vébanda, Lestrarmiðstöð KHÍ. Meginhlutverk hennar var að greina lestrarörðugleika nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum og fólks utan skólakerfisins, veita ráðgjöf, miðla þekkingu og vinna að rannsóknum á sérsviði sínu. Mikil þörf var fyrir þjónustu miðstöðvarinnar sem m.a. má sjá af því að allan tímann sem hún starfaði mynduðust langir biðlistar eftir greiningu.

Kennaraháskólinn fékk sérstakt framlag í fjárlögum til að standa að hluta til straum af kostnaði við rekstur Lestrarmiðstöðvarinnar en að auki aflaði miðstöðin nokkurra tekna með starfi sínu. Nú hefur það framlag verið fellt niður og Kennaraháskólinn hætt rekstri miðstöðvarinnar.

Afar mikilvægt er að greina lestrarvanda barna og fullorðinna og bregðast við honum. Þessi vandi er vaxandi og augljóst að nemendur á öllum skólastigum og fjöldi fullorðins fólks á við verulegan vanda að stríða sem dregur úr möguleikum til náms og háir því í daglegu starfi í atvinnulífi auk þess sem hömlun af þessu tagi hefur veruleg áhrif á andlega líðan og almennt gengi í lífinu.

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu telja mikilvægt að brugðist sé við þeim vanda sem skapast þegar Lestrarmiðstöðvar Kennaraháskóla Íslands nýtur ekki lengur við. Eðlilegt hlýtur að teljast að tengja verkefnið þeim stofnunum sem sinna rannsóknum á sviði fræðslumála, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu, hins vegar úti á landi. Af þessum sökum er lagt til að Háskólinn á Akureyri annars vegar og Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans hins vegar fái sérstakt framlag í fjárlögum til þess að greina lestrarvanda barna, unglinga og fullorðins fólks, veita ráðgjöf um viðbrögð og skipuleggja forvarnir.``

[17:15]

Herra forseti. Eftir að greiningarstöð Kennaraháskóla Íslands var lögð niður eða um leið og fjárframlög til stöðvarinnar voru lögð af, var greiningunni í raun vísað til grunnskólanna og framhaldsskólanna. Þar á greiningin að fara fram og gerir það í mörgum tilfellum. En við verðum að vera raunsæ og viðurkenna að aldrei verður hægt að uppfylla þær kröfur að til séu sérfræðingar í hverjum skóla eða í hverju sveitarfélagi sem hafi þá sérþekkingu að greina lestrarvanda til fullnustu, leiðbeina, koma með úrræði og kenna eftir því sem við á. Í flestum tilfellum er hægt að átta sig á því að lestrarvandi sé til staðar. En nákvæmri greiningu verður aldrei hægt sinna nema með sérstökum greiningarmiðstöðvum og þá fleiri en einni. Enda sýnir það sig af einhverjum ástæðum að lestrarvandi virðist frekar vera að færast í vöxt hjá fullorðnum, hvað svo sem í nútímasamfélagi orsakar það. Það er spurning hvort fleiri eiga núna í raun við lestrarörðugleika að stríða eða hvort þjóðin sé bara að átta sig betur á þessu vandamáli. Hugsanlega var þetta ekki eins mikil fötlun áður fyrr og nú. Þjóðfélagið hefur breyst svo mikið og því á fólk með lestrarerfiðleika í miklu meiri vandræðum nú en fyrir nokkrum áratugum. Í dag er ekki hægt að komast hjá því að vera læs og skrifandi. En því miður á stór hópur fólks við þetta vandamál að stríða. Það lagast ekki af sjálfu sér. Talið er að um 18% fullorðinna eigi við lestrarvanda að stríða. Í frétt á síðu Fréttapósts Samtaka verslunar og þjónustu er sagt frá þessu í örstuttu máli. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Um 18% Íslendinga á aldrinum 15--65 ára eiga við svo mikla lestrarerfiðleika að stríða að það hindrar þá í að afla sér starfs- og endurmenntunar. Þetta eru um 35.000 manns á umræddum aldri. Niðurstaðan kemur fram í skýrslu nefndar um læsisvanda fullorðinna á vinnumarkaði sem menntamálaráðherra skipaði. Fulltrúi SA/SVÞ átti sæti í nefndinni.``

Þarna vitna ég í fréttapóstinn en ekki í sjálfa skýrslu nefndarinnar.

Það er ekki bara fullorðna fólkið sem á við lestrarvanda að stríða. Það eiga líka börn og unglingar. Mjög mikilvægt er að greina þennan vanda strax í grunnskóla og þó ekki sé um algera lesblindu að ræða þá getur torlæsi verið það mikið að það hái börnum og unglingum svo mikið að þau gefist upp við allt nám þó svo ekkert ætti að hindra þessa nemendur í námi hvað gáfur snertir og hæfileika annað en lesblindan eða torlæsið.

Fyrir nokkrum dögum kom lesblindur fullorðinn maður fram í fjölmiðlum, ljósvakamiðlunum til þess að skýra frá því hvernig hann hafi sem barn og unglingur og fullorðinn maður upplifað og gengið í gegnum lífið lesblindur. Þessi maður þurfti töluvert áræði og kjark til þess að gera þetta. Hann segir réttilega að til lítils hefði verið að setja frétt í dagblöðin um lesblindu. Það hefði lítið þýtt þótt hann hefði skrifað grein og birt í einhverjum fjölmiðlanna því að lesblindir sem hann sérstaklega vildi höfða til og beina máli sínu til hefðu þá ekki tekið eftir henni því þeir vakta ekki blöðin og pikka ekki út greinar til lestrar. Mig langar til þess að grípa aðeins niður í viðtal við hann sem birtist í þættinum Ísland í dag, þann 4. þessa mánaðar. Þar segir þessi maður sem heitir Sigurjón Sigurðsson og er á miðjum aldri, með leyfi forseta:

,,Lesblindur maður er alltaf í felum með eitthvað. Hann þarf í hrakningum sínum að finna leiðir til að klífa hina ýmsu þröskulda sem mæta honum í þjóðfélaginu. Lesblindur maður nýtir sér ekki tölvuþekkingu. Hann sækir ekki skriflega um neitt, t.d. um vinnu eða námskeið og hann fer ekki ótilneyddur í bankann og fer helst ekki á mannamót af ótta við að þurfa að lesa eða skrifa.``

Sigurjón mætti í viðtalið ásamt kennara og Guðrúnu Gunnarsdóttur. Þar sagði hann frá því hvernig það var að vera barn og unglingur í skóla. Hann segir þegar hann er spurður að því hvort hann mundi lýsa því þannig að líf hans hafi bara verið einn stór feluleikur. Hann svarar, með leyfi forseta:

,,Þeir sem eru lesblindir eru alltaf í feluleik og ég hef alltaf verið það. Það má bara tala um það eða eins og þegar ég var í barnaskóla. Þú gast ekki gert hlutina sem þú áttir að koma með heim. Það var bara: ,,Í skammarkrókinn með þig.````

Hann segir síðan:

,,Þannig var þegar ég var í skóla. Svo hætti ég bara í skóla vegna þess að maður heyrði alltaf: ,,Þú kannt ekki neitt. Þú getur ekki neitt. Í skammarkrókinn með þig.````

Hann hættir í grunnskóla 11--12 ára gamall. Saga hans er ekkert einsdæmi. Lesblindir, þeir sem eru með dyslexíu, búa oft yfir miklum hæfileikum á öðrum sviðum, en því miður geta þeir ekki notið sín. Mjög margir listamenn, arkitektar og fólk í byggingargreinum er haldið dyslexíu en nýtur þess að hafa mjög sterkt formskyn. Það er hæfileiki sem hentar á ákveðnum sviðum. En það fólk verður að hafa úthald og þol til að komast áfram í menntakerfinu og/eða fá stuðning til þess að geta látið aðra hæfleika sína njóta sín.

En dyslexía, þ.e. að vera lesblindur, er ekki eina lesfötlunin. Mjög margir nemendur og fólk er líka seinlæst, meira að segja svo seinlæst að það les ekki nema um 70--80 orð á mínútu meðan venjulegur maður les um það bil 370 orð á mínútu. Það segir sig sjálft að torlæsi er öllum fötlun, sérstaklega nemum, hvort heldur er í grunnskóla eða framhaldsskóla. Þar sem við höfum verið að ræða um samræmd próf í framhaldsskólum þá er það alveg víst að það form sem á að taka upp núna á samræmdum prófum grunnskólanna mun verða öllum þeim nemendum sem seinlæsir eru og torlæsir mjög erfitt. Það er erfitt fyrir þessa nemendur að komast í gegnum krossapróf og eingöngu form prófsins getur orðið til þess að margir nemendur sem eiga við þessa fötlun --- því þetta er fötlun --- að stríða fá lægri einkunnir en þeir í raun og veru ættu skilið. Þetta ýtir undir það að áhugi þeirra minnkar og vonleysi eykst og þetta ýtir undir það að þeir flosna upp úr skóla.

Herra forseti. Ég tel að flest okkar þekki annaðhvort úr eigin fjölskyldu eða kunningjahópi sínum einhverja sem eru a.m.k. seinlæsir. En í langflestum tilfellum er hægt að hjálpa fólki til þess að ráða við þessa fötlun að miklu leyti. Svo mikil verðmæti liggja í öllu þessu fólki, ungu sem öldnu, að ég tel rétt að koma aftur á fót greiningarstöð við Kennaraháskóla Íslands og þá til viðbótar við Háskólann á Akureyri.