Framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 17:39:55 (3747)

2003-02-11 17:39:55# 128. lþ. 76.16 fundur 171. mál: #A framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla# þál., GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[17:39]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir er 1. flm. þessarar tillögu og flyt ég tillöguna í hennar stað. Aðrir meðflutningsmenn hennar eru Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Magnús Stefánsson, Ólafur Örn Haraldsson, Guðjón A. Kristjánsson, Katrín Fjeldsted og Drífa Hjartardóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skipaður verði starfshópur með fulltrúum ráðuneytis félagsmála, menntamála, umhverfismála, heilbrigðis- og tryggingamála, dómsmála, samgöngumála og fjármála og fulltrúum frá hagsmunasamtökum fatlaðra til að semja framkvæmdaáætlun sem hefur að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra. Jafnframt geri starfshópurinn kostnaðaráætlun um verkefnið. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins verði formaður starfshópsins.

Starfshópurinn leggi fram tillögur sínar fyrir 1. október 2003.``

Í greinargerð með tillögunni er gerð grein fyrir því hvernig Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað í þessum málum varðandi mikilvægi þess að þessi mál verði tryggð, þ.e. að aðgengið í víðasta skilningi þess orðs verði tryggt.

Grunntónninn í meginreglum Sameinuðu þjóðanna er réttur fatlaðra á við aðra þegna landsins. Lögð er skylda á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að aðgengismálum. Meginreglur Sameinuðu þjóðanna leggja ekki lagaskyldur á herðar ríkisstjórnum aðildarríkja en þær skuldbinda engu síður ríkin bæði siðferðislega og pólitískt.

Þegar unnið er að aðgengismálum er í langflestum tilvikum aðeins hugsað fyrir ytra að gengi, þ.e. aðgengi fyrir hreyfihamlaða. En í aðgengi felst meira en það. Til að tryggja aðgengi fyrir alla þarf að huga að aðgengismálum sjónskertra og blindra, heyrnarlausra og heyrnarskertra og einstaklinga með þroskafrávik. Hafa ber þó í huga að með bættu aðgengi er ekki aðeins verið að mæta þörfum fatlaðra heldur allra þegna því öll eigum við það sameiginlegt að eldast sem felur í sér lakari sjón, heyrn og hreyfigetu. Við þetta má bæta hinu ytra aðgengi er varðar bæði vagna, hjól og annað slíkt.

Aðgengismál heyra fyrst og fremst undir skipulags- og byggingarlög en þegar talað er um aukið aðgengi er auðvitað verið að tala um aðgengi að menningu, tómstundastörfum og öðru slíku.

Árið 1999 kom út skýrsla starfshóps um menningar- og tómstundastörf fatlaðra. Skýrslan var unnin af starfshópi á vegum félagsmálaráðuneytisins sem var skipaður samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 1996. Ég sat í þessum starfshópi fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga og þar leituðum við eftir bæði að fá upplýsingar um þátttöku barna og unglinga í skipulögðu tómstundastarfi, möguleika fatlaðra til ferðalaga og sumardvalar og aðgengi þeirra að menningarstarfsemi. Þá skoðaði nefndin sérstaklega möguleika fatlaðra til þess að njóta leiklistar, sækja söfn og listsýningar, nýta sér þjónustu bókasafna og taka þátt í starfsemi á vegum þjóðkirkjunnar. Einnig lagði starfshópurinn fram tillögur og ábendingar um úrbætur til þeirra ráðuneyta og sveitarfélaga sem hlut áttu að málinu. Þar kom fram mjög mikið af góðum tillögum.

Starfshópurinn mælti með að tryggja í lögum fjárhagsaðstoð, svo að ég nefni hér nokkrar tillögur hópsins, við fatlaða til að standa straum af kostnaði vegna aðstoðarmanna á ferðalögum. Því miður lágu ekki fyrir upplýsingar um aðgengi að gisti- og veitingahúsum eða ferðamannastöðum. Væri slíkt skoðað í dag af nýjum starfshópi mundum við strax sjá breytingar hér á milli ára. Flest ráðuneyti hafa fengið þessa skýrslu. Hún er því mjög góður grundvöllur fyrir þá vinnu sem tillagan gerir ráð fyrir.

Einnig má nefna verkefnaáætlun menntmrn. ,,Menntun og menning fyrir alla``. Markmiðið með áætluninni var skýrt: Menntun og menning fyrir alla. Fram kom að til að ná raunverulegur árangri mundi menntamálaráðuneytið fylgja þeirri áætlun af mikilli festu. Meðal annars mundi ráðuneytið fylgja eftir hinu víðtæka menningarátaki ársins 2000. Menningarstarf átti jafnframt að efla um land allt. Hópar fatlaðra hafa orðið sýnilegri í menningu og listum.

[17:45]

Í greinargerð er farið yfir stöðuna á Norðurlöndunum og sé ég ekki ástæðu til þess að gera það hér, heldur mun hv. félmn. væntanlega fara yfir þau mál. Ég reikna með að tillögunni verði vísað þangað en í niðurlagi greinargerðar með þessari þáltill. segir:

Ýmislegt hefur áunnist hér á landi í réttindamálum fatlaðra á undanförnum árum og áratugum en af samanburði við stöðuna annars staðar á Norðurlöndum má sjá að enn er mikið verk óunnið, ekki síst hvað varðar aðgengismál í víðum skilningi. Flutningsmenn vilja með tillögu þessari hvetja til þess að unnið verði markvisst að úrbótum í aðgengismálum í samræmi við meginreglur Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu með því að mæla fyrir þessari tillögu og legg til að henni verði vísað til hv. félmn.