Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 17:47:26 (3748)

2003-02-11 17:47:26# 128. lþ. 76.17 fundur 184. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vextir og verðbætur af námslánum) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[17:47]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem ég flyt ásamt hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og Einari Má Sigurðarsyni. Í frv. eru lagðar til breytingar eins og áður sagði á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þess efnis að heimilt verði að draga vexti og verðbætur af námslánum frá skattskyldum tekjum manna. Það er sanngirnismál að þeim sem þurfa að greiða af námslánum verði gert það léttara með því að vextir og verðbætur af lánunum verði frádráttarbært af skattskyldum tekjum, en endurgreiðslur lánanna miðast að hluta til við tekjur. Með því væri í raun um að ræða fjárfestingu í menntun en benda má á að sambærilegar skattaívilnanir tíðkast á ýmsum sviðum atvinnurekstrar.

Mjög gagnrýnisvert er hvernig framkvæmd námslána er háttað og að ekki skuli vera um samtímagreiðslur að ræða. Námsmenn eru settir í þá óviðeigandi stöðu að þurfa að taka yfirdráttarlán í bönkum og fá ekki námslán nema þeir skili tilskildum námsárangri í lok hverrar annar. Mikið óöryggi og álag fylgir slíku fyrirkomulagi fyrir námsmanninn og fjölskyldu hans. Hver umsækjandi fær útreikning væntanlegs láns frá Lánasjóði íslenskra námsmanna miðað við fullt nám og 100% námsframvindu (svonefnda náms- og lánsfjáráætlun) þegar hann hefur skilað öllum tilskildum gögnum til lánasjóðsins. Námslán greiðast inn á bankareikning námsmanns eftir hverja önn eða skólaár þegar lánasjóðnum hafa borist gögn um árangur í námi og önnur tilskilin gögn. Af lánunum er tekið 1,2% lántökugjald sem íþyngir verulega fjárhag námsmanna. Umsækjendur þurfa því að fjármagna nám sitt sjálfir með skammtímalánum eða yfirdráttarlánum þar til námslán fást greidd að lokinni einkunnagjöf. Skólar á Íslandi senda árangurinn beint til lánasjóðsins en námsmenn erlendis verða að sjá um það sjálfir. Þeir sem ekki taka próf á miðjum vetri verða að senda staðfestingu á námsástundun.

Námslán eru verðtryggð og bera allt að 3% vexti frá námslokum en samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar er vaxtaprósentan nú 1%. Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok og er árleg endurgreiðsla 4,75% af vergum tekjum næsta árs á undan. Greiðslubyrði af námslánum getur því verið þung, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna er árið 2002 árleg lágmarksendurgreiðsla liðlega 65.000 kr., og sem dæmi má nefna að árs afborgun af 2 millj. kr. tekjum er 95.000 kr., eða tæpar 8.000 kr. á mánuði, og af 3 millj. kr. tekjum er ársafborgunin 142.500 kr., eða tæpar 12.000 kr. á mánuði.

Í úthlutunarreglum lánasjóðsins kemur fram að við útborgun lána fyrir framfærslu- og bókakostnaði, sem greiðist eftir hverja önn, missiri eða skólaár, skal greiða vaxtastyrk. Styrkur til haustmissiris skal nema 1,4% af framfærslu- og bókaláni missirisins, en styrkur til vormissiris 1,8% af framfærslu- og bókaláni missirisins. Ef lán eða hluti láns fyrir missiri er greitt út á grundvelli árangurs sem skilað er á síðara missiri námsársins eða niðurstaðna upptökuprófa að hausti skal miða styrkinn við 3,7% af framfærslu- og bókaláninu, eða þeim hluta lánsins sem þá er greiddur út á grundvelli árangurs sem skilað er. Ljóst er að vaxtastyrkurinn dugar ekki til að mæta þeim kostnaði sem námsmenn verða fyrir vegna þeirra skammtímalána sem þeir verða að taka í formi yfirdráttarlána til að brúa bilið þar til námslánið er greitt að lokinni námsframvindu á vori og hausti. Samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið vegna flutnings þessa frumvarps kemur í ljós að ef miðað er við framfærslugrunn lánasjóðsins, 75.500 kr. á mánuði, auk bókaláns að upphæð 20.000 kr. á haustönn, miðað við haust- og vorönn og þá vaxtastyrki sem lánasjóðurinn greiðir vegna þess, kemur í ljós að með lántökukostnaði, sem er 1,2% af greiddri fjárhæð, er mismunurinn sem námsmaður þarf að greiða tæpar 9.000 kr.

Í frumvarpinu er lagt til að í fimm ár eftir að námi lýkur og endurgreiðslur hefjast geti námsmenn dregið vexti og verðbætur af námslánum frá tekjuskattsstofni. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að íhuga eigi þann möguleika í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á þessu máli að heimilt verði að greiða mismun á vaxtastyrkjum og sannanlegum kostnaði af yfirdráttarlánunum og lántökugjöldum á námstímanum frá tekjuskattsstofni eftir nánari reglum sem ríkisskattstjóri setji. Samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra voru eftirstöðvar námslána, sem færðar voru á framtöl 2001, um 44,8 milljarðar kr. og vextir og verðbætur um 683 millj. kr. hjá tæplega 31.000 aðilum. Við framtal 2002 voru eftirstöðvarnar 49,5 milljarðar kr. og vextir og verðbætur um 796 millj. kr. hjá 30.000 aðilum. Framangreindar tölur ná eingöngu til þeirra sem voru taldir skattskyldir hér á landi en ekki til þeirra sem hafa skattalega búsetu erlendis og eru ekki á skrá skattyfirvalda hér á landi af öðrum ástæðum. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga er um 100 millj. kr. Námsmenn munar verulega um slíkar fjárhæðir þegar þeir koma úr námi með miklar skuldir á bakinu, ekki síst ef um barnafjölskyldur er að ræða.

Herra forseti. Ég er alveg sannfærð um að þessi leið mun jafna aðstöðu til náms og ýta undir fjárfestingu í menntun. Það er alveg ljóst að á umliðnum árum hefur dregið úr jöfnum aðgangi unga fólksins til náms, ekki bara vegna þess að lánin sem námsmenn þurfa að taka eru dýr, heldur hafa allar aðstæður námsmanna versnað. Nefni ég þar ekki síst kostnað við búsetu. Leigumarkaðurinn er orðinn mjög erfiður og dýr og það eru vaxandi biðlistar eftir íbúðum námsmanna. Félagsstofnun stúdenta hefur verið gert erfitt fyrir alveg eins og öðrum félagasamtökum og sveitarfélögum sem hafa það á sinni verkefnaskrá að koma á fót leiguíbúðum vegna þeirra miklu hækkana sem hafa orðið á vöxtum á leiguíbúðum. Því munar námsmenn verulega um það ef þetta frv. nær fram að ganga og heimilt verður að draga vexti og verðbætur af námslánum frá skattskyldum tekjum manna.

Það er ekki bara að það séu erfiðleikar hjá námsmönnum við að koma sér upp húsnæði heldur hefur dregið verulega úr barnabótum á þessu kjörtímabili. Þær eru í raun og sanni, herra forseti, lægri en þær voru árið 1995 þegar þessir flokkar tóku við sem nú stýra landinu. Tekjutengingin hefur vaxið verulega þannig að hér er í raun og sanni bara um að ræða láglaunabætur en ekki barnabætur. Ótekjutengdi hluti barnabótanna hefur dregist verulega saman og er einungis greiddur með börnum til 7 ára aldurs í stað 16 ára aldurs eins og var á árinu 1995.

Það nægir að nefna þessa tvo veigamiklu þætti í kjörum námsmanna sem skipta þá miklu til þess að sýna fram á að aðstæður námsmanna hafa versnað sem er þá rökstuðningur fyrir því að farin verði þessi leið, sem ég mæli fyrir, að heimilt verði að draga vexti og verðbætur af námslánum frá skattskyldum tekjum manna. Það kostar ríkissjóð ekki mikið en skiptir verulegu máli fyrir námsmennina.

Það er ástæða til þess að geta þess líka í tengslum við þetta frv. að það er vaxandi umræða meðal hagsmunasamtaka háskólamanna og námsmanna til að finna leiðir til að létta á endurgreiðslubyrði af námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og hafa þeir skoðað mjög og lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, og eru m.a. með á borðunum þá hugmynd sem ég hef fært í frumvarpsbúning nema hvað þeir ganga nokkru lengra en frv. þetta gerir ráð fyrir. Frv. gerir ráð fyrir að heimilt verði að draga vexti og verðbætur af námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna frá skattskyldum tekjum í fimm ár frá og með þeim tíma þegar endurgreiðsla hefst en hugmynd þeirra gerir ráð fyrir því að vexti og verðbætur sé heimilt að draga frá ótímabundið og binda þeir það ekki við tiltekinn árafjölda eins og ég hef gert í því frv. sem ég mæli fyrir. Þeir ganga því mun lengra.

Í gögnum sem þeir hafa m.a. lagt fram þar sem þeir bera saman tilhögun námslána á Íslandi við önnur lönd kemur orðrétt fram í gögnum sem ég hef undir höndum frá þeim að ,,tekjuskattskerfi Norðurlandanna eigi margt sameiginlegt, þannig séu t.d. vaxtatekjur skattlagðar í öllum löndum`` en þeir segja hér að ,,vaxtagjöld sé leyfilegt að nýta til frádráttar frá vaxtatekjum áður en til skattlagningar kemur nema á Íslandi``. Þeir benda á að þegar Norðurlöndin eru skoðuð komi í ljós að ,,þau eiga það sameiginlegt að settar eru fram ákveðnar kröfur við ákvörðun um veitingu lána og styrkja. Námsaðstoð er á formi námslána og styrkja nema hér á landi en Ísland er eina landið sem ekki veitir námsmönnum beina styrki. Styrkhlutfallið er hæst í Danmörku eða Finnlandi, eða um 66%, og úthlutunarreglur þjóðanna eru mjög svipaðar en það sem helst sker sig úr er frítekjumarkið sem er lægst á Íslandi.`` Það er stór samráðshópur sem vinnur að þessu sem ég var hér að lýsa um endurgreiðslu námslána. Í honum eru Bandalag háskólamanna, Bandalag íslenskra sérskólanema, BSRB, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag prófessora, Félag unglækna, Iðnnemasambandið, Kennarasamband Íslands og fleiri aðilar.

Þeir nefna líka í greinargerð sinni, herra forseti, að ,,núverandi fyrirkomulag námslána auki líkur á því að námsmenn breyti námsvali sínu og velji frekar námsgreinar sem þykja tryggja öruggar tekjur að námi loknu, og leitt er getum að því að kerfið beini nemendum frá námi, m.a. í listgreinum og sumum greinum raunvísinda``.

[18:00]

Margt annað fróðlegt kemur fram í samantekt þeirra. Þeir segja að rannsókn sem þeir hafa gert sýni að hlutfall endurgreiðslu af heildartekjum þeirra er hófu að greiða af námslánum árið 2001 er allt að því þrisvar sinnum hærra en þeirra er hófu endurgreiðslu námaslána á árunum upp úr 1982. Þannig greiða lántakendur svokallaðra R-lána fast að 5,1% af heildartekjum sínum til LÍN og greiðendur R-lána greiða því lánasjóðnum að jafnaði eina útborgun mánaðarlauna sinna á ári.

Hér er ég með frétt úr Fréttablaðinu, herra forseti, sem ég vil vitna í í lokin, þar sem verið er að fara yfir þá leið sem ég hef mælt fyrir nema að því leyti að hún gengur lengra, þ.e. sú leið sem námsmenn mæla fyrir og forsvarsmenn þeirra.

Þar segir, herra forseti og vitna ég í Fréttablaðið, með leyfi forseta:

,,Á sama tíma er fjöldi þeirra t.d. að koma sér upp hús\-næði`` --- verið er að tala um námsmenn, herra forseti --- ,,eftir margra ára háskólanám þar sem endurgreiðslubyrði margra af námslánum er ígildi mánaðarlauna á ársgrundvelli. Til að reyna að ná fram sem víðtækastri samstöðu um þetta mál hefur verið boðað til samráðsfundar um það og er vænst til að þar muni m.a. mæta fulltrúar frá samtökum háskólamenntaðs launafólks og námsmannahreyfingar auk fulltrúa frá ASÍ og BSRB.

Gísli Tryggvason, framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna BHM, segir að ætlunin sé að hrinda af stað forkönnun á því hvernig unnt sé að taka tillit til endurgreiðslubyrði í skattkerfinu eða með öðrum hætti. Í því sambandi hefur einkum verið rætt um fjórar leiðir sem gætu komið til greina, þ.e. skattafsláttur, þannig að endurgreiðslur námslána séu ekki álitnar hluti af skattstofni, sveigjanleiki í endurgreiðslum, lækkun hlutfallsgjalds, sem er um 4,75% af heildarlaunum auk þess sem bent hefur verið á þann möguleika að miða hlutfallsgjaldið við nettólaun, þ.e. laun eftir skatta.``

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þetta er ein af þeim leiðum sem verið er að kanna í þeirra hópi til að létta námsmönnum endurgreiðslu á námslánum. Ég hvet eindregið til þess að efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til skoðunar íhugi þetta vel. Við þurfum að bæta menntakerfi okkar og örva unga fólkið til náms. Það er í því fólgin framtíðarfjárfesting að styðja og styrkja við bakið á menntun og ég er alveg sannfærð um að sú leið sem hér er farin, sem kostar nú ríkissjóð ekki nema 100 millj. kr., muni verða verulegur hvati til þess að fjölga þeim sem leita sér menntunar. Og það skulu vera lokaorð mín, herra forseti, að hér er virkilega um fjárfestingu í menntun að ræða að veita þetta fjármagn úr ríkissjóði til að létta undir með námsmönnum.

Ég legg til að að lokinni umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.