Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 18:09:45 (3750)

2003-02-11 18:09:45# 128. lþ. 76.20 fundur 192. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt till. til þál. um aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað. Auk mín eru hv. þm. Jón Bjarnason og Kolbrún Halldórsdóttir meðflytjendur að málinu.

Þessi tillaga hefur verið flutt áður á 125. og 126. löggjafarþingi en er nú endurflutt og verður ekki hætt við slíkan flutning fyrr en málið verður komið í höfn og vona ég að ekki þurfi fleiri þing en þetta til að koma málinu af stað.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum til að veita bændum sérstakan aðlögunarstuðning við lífrænan landbúnað sambærilegan þeim sem veittur er annars staðar á Norðurlöndum.``

Árið 1998 samþykktum við á hinu háa Alþingi þáltill. þar sem Alþingi skorar á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til að unnt verði að veita bændum stuðning við aðlögun búskapar að lífrænum búskaparháttum. Síðan þá höfum við gert breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni án þess að auka nokkuð þann stuðning sem hefur verið nú til nokkurra ára við bændur í lífrænni ræktun og eru það allt styrkir sem eru eingreiðsla en ekki stuðningur til einhvers tíma. Þá má nefna að núna er veittur styrkur til lífrænnar ræktunar eða endurræktunar lands. Stuðningurinn má vera að hámarki 25.000 kr. á hektara lands og 250 kr. á fermetra í gróðurhúsi. En þar er um eingreiðslur að ræða, eins og ég sagði áðan. Átaksverkefni, sem gengur undir nafninu ÁFORM -- átaksverkefni, sem unnið er samkvæmt lögum frá 1995, veitti tímabundið stuðning við framleiðslu á dilkakjöti, og það hefur hvorki verið tekinn upp áframhaldandi stuðningur við framleiðslu á dilkakjöti né einhver markmið sett til þess að styrkja bændur við áframhaldandi framleiðslu á lífrænt vottuðu dilkakjöti.

En þó að þessar greiðslur séu til staðar hér á landi eru þær langt í frá að vera sambærilegar þeim stuðningi sem bændur annars staðar á Norðurlöndum búa við. Því leggjum við til að við tökum upp þeirra siði og stuðning við bændur sem vilja breyta um búskaparhætti því framleiðslan við lífræna ræktun er dýrari í byrjun og fellur þar til nokkur kostnaður við umbyltingu á ræktun lands og eins hvað varðar tækjabúnað og húsakost.

Nokkuð hefur verið fjallað um lífræna ræktun innan samtaka bænda, bæði hjá sérgreinafélögunum og eins hjá Bændasamtökunum, en við höfum enn ekki markað okkur ákveðna stefnu, eins og t.d. Danir hafa gert, að setja sér það markmið að um 20% allrar framleiðslu í landbúnaði verði vottað lífrænt á ákveðnu árabili. Við höfum ekki sett okkur slík markmið enda er ekki nema rétt rúmlega 1% af framleiðslunni í landbúnaði lífrænt vottað hér á landi í dag.

[18:15]

Árið 1996 fjallaði búnaðarþing um þetta mál. Í framhaldinu var settur á stofn vinnuhópur sem skilaði áliti til Bændasamtakanna og sem nokkuð hefur verið stuðst við fram á þennan dag. Eins ályktaði búnaðarþing aftur árið 1999 og taldi þá að stefna bæri að því að stærri hluti landbúnaðarframleiðslunnar yrði vottaður lífrænn, m.a. vegna möguleika á útflutningi lífræns dilkakjöts. Sá útflutningur hefur kannski ekki fyllilega gengið eftir, að hluta til vegna þess að það hefur vantað lífrænt dilkakjöt í útflutninginn. Íhugunarefnið er kannski ekki eingöngu markaðurinn heldur líka möguleikarnir á að fá nægilegt kjöt til útflutnings, ef hægt er að komast inn á stærri markaði eins og Bretland, því að það magn sem framleitt er í dag er svo takmarkað að það getur líka verið markaðshindrandi að fara inn á þessa stóru markaði og hafa síðan ekki vöruna tiltæka.

Það er alveg ljóst að áhugi almennings, sérstaklega á Vesturlöndum og í hinum iðnvæddu ríkjum, fyrir lífrænt vottuðum vörum eykst stöðugt. Ástæðan fyrir því er augljós, með auknum verksmiðjubúskap höfum við ekki komist hjá því að fá upp sýkingar í bústofnum, sama hvaða tegund það er. Við urðum illilega vör við það á liðnum vetri og fyrir tveimur vetrum þegar upp kom fár í löndunum í kringum okkur í búpeningi, sérstaklega nautgripum. Að stórum hluta má kenna breyttum búskaparháttum um þessar auknu sýkingar í búfénaði. Verksmiðjubúskapur hefur nær alfarið tekið við með stóraukinni notkun á sýklalyfjum og bakteríudrepandi lyfjum sem hafa orðið til þess að upp hafa komið sterkir bakteríustofnar sem erfitt hefur verið að ráða við. Það eru sem sé komnar upp fjölónæmar bakteríur sem valdið hafa fjölda manns alvarlegum veikindum.

Því hafa þjóðir litið til þess að snúa þróuninni við, setja sér það markmið að auka þátt lífræns landbúnaðar þar sem notkun sýklalyfja er ekki fyrir hendi, ekki fyrirbyggjandi eins og í verksmiðjubúskapnum, og í þeim tilfellum þar sem þarf að grípa til sýklalyfja er það allt skráð, og dýrin tekin frá á meðan. Það á að vera hægt að treysta því að sú vara, það dýr sem þarf að nota sýklalyf tímabundið, fari ekki inn í kjötframleiðsluna. Eins er með aðrar vörur eins og korn og grænmeti, í lífrænni ræktun er ekki heimilt að eitra eins og gert er í þessum mikla verksmiðjubúskap sem fyrirbyggjandi aðgerð, heldur eru notaðar aðrar aðferðir sem kosta þá meiri mannafla og meiri vinnu en skilar sér til fólks með betri og heilnæmari vöru. Þetta hefur farið saman, við höfum kallað það ,,heilsubylgju`` sem hefur gengið yfir hinn vestræna heim. Samhliða henni hefur vaknað áhugi á að borða hollan mat, og hann fæst ekki í dag hollari heldur en með lífrænni ræktun. Með vottun á vöru á fólk að geta treyst því að ekki sé um aukefni að ræða, þ.e. að fólk eigi ekki á hættu að við framleiðslu á vörum sé notað eitur eða sýklalyf.

Því miður er staða okkar þessi þrátt fyrir að við búum hér í hreinu landi sem við grobbum okkur oft af. Vissulega eru skilyrðin hér til lífrænnar ræktunar að nokkru leyti erfið vegna legu landsins, vegna þess loftslags og kulda sem við búum við, en það er engin ástæða til þess að láta sér fallast hendur og telja úr sér kjarkinn og halda því fram að það sé ekki hægt að vera hér með umtalsverða lífræna ræktun vegna legu landsins. Það er hægt að beita ýmsum ráðum til þess að vega þar upp á móti en til þess þurfa bændur fræðslu og stuðning. Sá stuðningur á m.a. að koma okkur út úr því kerfi sem við erum með í dag, sem sé framleiðsluhvetjandi kerfi, yfir í búsetutengda styrki, umhverfisstyrki, styrki til bænda til þess að vera eins konar umsjónarmenn lands og landgæða og styrki til þess að nýta ýmis gæði jarðarinnar sem við notum kannski ekki svo mikið í dag. En það má nefna að hægt er að tala um lífræn hlunnindi, svo sem æðardún, fjallagrös, jurtir, söl, þangmjöl, sveppi, trjáafurðir, vatnasilung, lax og hreindýraafurðir, og þá yrði miðað við afurðamagn eða aðra heppilega einingu til þess að hafa það form á styrkingu en ekki sem framleiðsluhvetjandi. Aðlögunarstuðningur mundi þá miðast einkum við eftirlits- og vottunarkostnað.

Það væri hægt að hafa hér langa framsögu um þetta mál því að það snertir ekki eingöngu bændur, það snertir okkur öll. Það skiptir okkur máli að eiga aðgang að og geta keypt íslenskar lífrænt vottaðar vörur því að eftirspurnin er langt umfram það sem þeir bændur sem nú eru í þessari ræktun hafa getað sinnt. Það er mikið um innfluttar lífrænt vottaðar vörur og ég tel að við eigum að leggja metnað í það að geta uppfyllt þarfir markaðarins með íslenskri framleiðslu og að styðja bændur til þess.

Vel á minnst, herra forseti, það er ánægjulegt að fylgjast með þeirri þróun í verslunum erlendis --- við sjáum sprota af því hér á landi --- að maður kemur varla svo í stórverslun, matvöruverslun, að ekki sé heil deild þar sem eru eingöngu lífrænt vottaðar vörur þar sem maður getur valið sér alla flóruna af matvælum. Víða erlendis er það orðinn eðlilegur hluti af smásölunni að vera með lífrænt vottaðar vörur, og ég tel að við eigum að vera frekar fyrri til en seinni að stuðla að frekari innflutningi á þessum vörum.