Niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 13:32:10 (3757)

2003-02-12 13:32:10# 128. lþ. 77.1 fundur 531. mál: #A niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Fjárlög ríkja og útgjöld úr sameiginlegum sjóðum þjóða er hægt að skoða á ýmsan hátt. Það er hægt að mæla þau á ólíkum mælistikum og rýna í þau með ólíkum gleraugum. Það færist í vöxt að fjárlög séu skoðuð sérstaklega út frá sjónarmiðum t.d. umhverfisverndar og farið að tíðka það í nágrannalöndum okkar að sérstök græn bók fylgi fjárlögum sem ætlað er að leggja mat á það hvernig umhverfismálum er sinnt á viðkomandi fjárlögum eða hvort tekið sé tillit til skuldbindinga sem ríkisstjórnir hafa gert, t.d. á alþjóðlegum vettvangi eins og í Ríó-samþykktum, eða hvort fylgt er yfirlýstri stefnu á innlendum vettvangi eins og í áætlun um sjálfbært samfélag.

Þá hefur einnig verið rudd sú braut, herra forseti, í nágrannalöndum okkar að farið er að leggja mælistiku velferðar á fjárlögin og rýna í þau út frá sérstaklega afmörkuðum hópum fólks, t.d. með tilliti til þess hvernig þau í heild sinni nýtast eða koma niður á t.d. fötluðum eða sjúkum.

Ein þeirra gleraugna sem nágrannalönd okkar eru farin að bregða upp þegar ráðstöfun opinbers fjár er skoðuð eru kynjagleraugun. Þau greina hvernig fjármunir hins opinbera gagnast kynjunum og hvort kynjunum, þ.e. mögulega ólíkum þörfum þeirra, sé á einhvern hátt mismunað í fjárlögum hins opinbera. Vinnubrögð af þessu tagi eru nú tíðkuð í auknum mæli í nágrannalöndum okkar og mér er kunnugt um að norræna ráðherranefndin hafi samþykkt reglur varðandi það hvernig unnið er að þessum málum innan húss hjá sér. Sumarið 2001 ákváðu svo fjármálaráðherrar Norðurlandanna að setja á fót starfshóp sem hefði það hlutverk að koma með tillögu að sameiginlegu norrænu verkefni um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis. Hópurinn starfaði frá janúar 2002 til september 2002 og þar sem hann hefur nú lokið störfum þykir mér tilhlýðilegt að leggja fyrir fjmrh. eftirfarandi spurningar:

1. Hverjar eru tillögur starfshópsins?

2. Hverjir áttu sæti í hópnum fyrir Íslands hönd?

3. Hvernig má gera ráð fyrir að farið verði með tillögur hópsins og hvernig verður háttað áframhaldandi vinnu við verkefnið?