Niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 13:34:32 (3758)

2003-02-12 13:34:32# 128. lþ. 77.1 fundur 531. mál: #A niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda hefur á vettvangi Norðurlandanna og norrænu ráðherranefndarinnar verið unnið að því máli sem fyrirspyrjandi drap á. Er nánar gerð grein fyrir því í skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda sem hér liggur frammi í þingsölum sem þskj. 923.

Tillögur þess starfshóps sem spurt er um felast í því að unnið verði að einstökum verkefnum í hverju landi fyrir sig, hverju Norðurlandanna fimm, en að stjórnun, ráðgjöf, ráðstefnuhald og kynningar fari fram í gegnum samnorrænan vinnuhóp sem verði þá komið á fót í því skyni. Lagt er til að í norræna vinnuhópnum verði fulltrúar frá fjármálaráðuneytum og jafnréttisgeirum hvers lands sem hafi einnig tengingu inn í vinnuhóp einstakra landa. Síðan er fyrirhugað að auglýsa eftir stjórnanda þessa verkefnis á öllum Norðurlöndunum. Það er lagt til að með íslenska verkefninu verði skoðað hvernig fjármunir og önnur úrræði á sviði almannatryggingakerfisins dreifast á milli kynjanna. Miklum fjármunum er sem kunnugt er varið af opinberri hálfu í þennan málaflokk en takmarkaðar upplýsingar til um á hvern hátt þeim er varið með hliðsjón af kynjasjónarmiðum, t.d. eins og hverjir sækja um aðstoð og hverjir fá hana, einnig á hvaða sviðum þessi mælikvarði er matskenndur og á hvaða sviðum rétturinn kann að vera afdráttarlaus og fleira í þeim dúr.

Þetta er sem sagt verkefnið, herra forseti, af Íslands hálfu en uppbyggingin er að öðru leyti eins og ég áður drap á þannig að einstök verkefni verða unnin í löndunum hverju fyrir sig en sameiginlegur vinnuhópur sér um samræmingu og utanumhald.

Fyrirspyrjandinn spyr hverjir hafi átt sæti í þessum hópi fyrir Íslands hönd. Því er til að svara að fulltrúar Íslands voru Helga Jónsdóttir, hagfræðingur í fjmrn., og Margrét María Sigurðardóttir, lögfræðingur hjá Jafnréttisstofu.

Síðan er spurt hvernig gera megi ráð fyrir að farið verði með tillögur hópsins og hvernig áframhaldandi vinnu við verkefnið verði háttað. Svarið er það að hvað varðar vinnu við samnorrænan hluta verkefnisins er, samkvæmt tillögu starfshópsins, gert ráð fyrir því að haldin verði norræn ráðstefna sem marki upphaf þessa verkefnis. Þessi ráðstefna hefur ekki enn þá verið boðuð en það er á ábyrgð norrænu ráðherranefndarinnar að boða til hennar.

Vegna íslenska verkefnisins er lagt til að stofnaður verði stýrihópur sem stjórni verkefninu. Í honum mætti hugsa sér að væri einn fulltrúi frá fjmrn., annar frá heilbr.- og trmrn., einn frá Jafnréttisstofu og einn frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt er lagt til að gefinn verði möguleiki á því að með stýrihópnum vinni rannsóknaraðili sem hafi þekkingu á jafnréttismálum, t.d. frá Háskóla Íslands eða annarri stofnun. Kostnaður við íslenska verkefnið hefur hvorki verið metinn né hvernig ætti að fjármagna hann. Væntanlega væri hægt að ganga út frá því að í slíkum stýrihópi gætu aðilar starfað á kostnað þeirrar stofnunar sem þeir vinna fyrir enda teldu þær sig hafa nokkurn hag af þátttökunni. Kæmi til þess að rannsóknaraðili yrði fenginn til að vinna að verkefninu kæmi til greina að verkefnið yrði sett inn í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Sú tilhögun gæti gert það auðveldara að fjármagna þann sérstaka kostnað sem þessu kann að fylgja.