Nýting innlends trjáviðar

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 13:52:30 (3764)

2003-02-12 13:52:30# 128. lþ. 78.15 fundur 154. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég styð þessa tillögu um nýtingu innlends trjáviðar sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Jónas Hallgrímsson og Magnús Stefánsson flytja. Ég ítreka að við erum nú í síauknum mæli að rækta skóg á Íslandi og það er höfðað mjög til bænda að rækta skóg. Það átak hefur gengið vel en það er ekki nægilegt að rækta skóg. Til einhvers ætlum við að nýta hann og svo langt erum við ekki komin í okkar skógræktaráætlunum að sjá næstu skref til hvers á að nýta allan þann skóg sem verið er að rækta og á hvern hátt er hægt að ná sem mestum verðmætum út úr þeim skógi. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að það timbur sem til fellur mun ekki vera samkeppnishæft við borðviði og stórviði sem hægt er að fá víða erlendis þannig að við þurfum að finna okkar eigin markaði og okkar eigin nýtingu. Ég tel mikilvægt að taka þessi næstu skref og það sem fyrst til þess að skoða með hvaða hætti bændur sjálfir geta nýtt þá afurð, ekki bara að grisja og flytja vöruna í burtu heldur að framleiðslan sitji eftir heima sem bændur sjálfir geta unnið að.

Það námskeið sem vísað var til, Lesið í skóginn og tálgað í tré, hefur gefið mörgum, ekki bara skógarbændum heldur áhugamönnum um þessa nytjalist að tálga í tré, trú á það að ekki sé bara hægt að gera þetta í útlöndum. Við Íslendingar höfum þetta í okkur líka og við þurfum að læra handbragðið og hafa rétt áhöld til þess. Mér er mjög minnisstætt í þessu sambandi að ég var stödd í Þýskalandi núna um jólin og fór þar á jólamarkaði og uppistaðan á þeim jólamörkuðum sem ég fór á voru handverksmunir, trémunir sem bændur í ákveðnum héruðum Þýskalands vinna að allt árið. Þetta eru munir tengdir jólum og páskum, ákveðin listgrein, en það eru bændur sem framleiða þetta, heilu þorpin þar sem þetta er uppistaðan í atvinnunni og er orðin aðalsmerki á jólamörkuðunum í Þýskalandi. Ég veit að svona er þetta víða í Mið-Evrópu. Þetta eigum við auðvitað að geta gert líka.

Ég veit að ferðamenn hafa kvartað yfir því eða verið undrandi á því að hér skuli ekki vera meira framboð af handunninni vöru en þó er og fjölbreyttari en hún er í dag. Þarna er markaður, og eins þurfum við að þróa áfram tækni í að framleiða gólfefni, parket og panel, því að við þurfum að öllum líkindum að nota aðrar aðferðir en gerist við stærri trjáviði erlendis.

Því hvet ég til þess að tillagan verði vandlega skoðuð. Hún á að geta skapað mörgum atvinnu og það uppbyggilega atvinnu. Það er forkastanlegt að setja í gang stórar og miklar skógræktaráætlanir til trjáviðarframleiðslu og uppgræðslu án þess að sjá fyrir endann á því til hvers við ætlum að nota það sem til fellur og ætlum umtalsverða atvinnu við grisjun og umhirðu skóganna..