Nýting innlends trjáviðar

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 13:57:02 (3765)

2003-02-12 13:57:02# 128. lþ. 78.15 fundur 154. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Við ræðum till. til þál. um nýtingu innlends trjáviðar eins og hv. 1. flm., hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, hefur gert grein fyrir.

Ljóst er eins og fram kemur í greinargerðinni og við vitum öll að trjárækt er vaxandi atvinnugrein hér á landi og með uppbyggingu landshlutabundinna skógræktarverkefna, eins og gert hefur verið undanfarin ár, hefur þessi grein verið byggð markvisst upp. Sú uppbygging stendur yfir og gengur sem vonandi best á næstu árum. Enginn vafi er á því að skógræktin og uppbygging hennar er til þess fallin að styrkja atvinnulíf víða um land og þá kannski sérstaklega í sveitum landsins. En það er auðvitað eins og við vitum ekki nóg að planta og rækta upp skóga. Það er ekki síður mikilvægt að grisja þá og fella tré eftir því sem þurfa þykir hverju sinni og eftir því sem trjáræktinni vex fiskur um hrygg mun það verða svo að meira og meira fellur til á hverju ári vegna grisjunar og nýtingar viðarins eftir því sem tímar líða. Það er því mjög mikilvægt fyrir okkur að móta um það stefnu og finna út úr því hvernig við getum nýtt þá auðlind sem er vaxandi á næstu árum og tillagan gengur út á það.

Hér er því um að ræða mjög markvert verkefni fyrir landbrn. og hæstv. landbrh. að láta þetta mál til sín taka og ég tel einboðið að hæstv. ráðherra og ráðuneytið muni leita samstarfs við iðnaðinn í landinu og handverksfólk og fleiri til þess að móta um þetta markvissa stefnu þannig að við getum nýtt þá auðlind sem eins og fram hefur komið er mjög vaxandi á næstu árum og til framtíðar ættu að felast í þessu ákveðin sóknarfæri varðandi atvinnulífið.

Herra forseti. Ég vildi rétt koma hér og fagna því að þessi tillaga er komin fram. Ég tel að hér sé um mjög markvert mál að ræða sem er mikilvægt að við mótum stefnu um og reynum að ná samstöðu um að nýta það hráefni sem hér um ræðir. Ég leyfi mér að hvetja til þess að Alþingi samþykki tillöguna og hæstv. landbrh. láti til sín taka við að vinna úr henni eins og upp er lagt.