Nýting innlends trjáviðar

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:00:04 (3766)

2003-02-12 14:00:04# 128. lþ. 78.15 fundur 154. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni fyrir að færa þetta mál inn í þingið. Ég tel að það sé af hinu góða þegar flutningsmaður flytur þáltill. um að nýta gæði og gögn landsins. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að menn skuli koma auga á að nýta má trjáviðinn okkar betur. Ég vil hins vegar benda á að líka má nýta rekaviðinn betur þó að við þurfum ekki að stinga honum ofan í jörðina til þess að láta hann vaxa heldur flytja hafstraumar og vindar hann til okkar. Þar er því líka ónýtt auðlind.

Auðvitað breytist fjöldamargt annað í landinu við aukna skógrækt. Það er t.d. alveg gefið að náttúrufar í landinu mun smátt og smátt breytast með aukinni skógrækt. Hér mun fuglategundum fjölga og gróðurfarið mun vafalaust breytast. Fleiri landnytjar kunna því að tengjast breyttri ræktun landsins en það sem hér er lagt til --- þetta er ágæt tillaga --- og kunna að fylgja með þegar menn huga að því hvað má nytja hér á landi.

Svo vill til að á seinni árum hafa hugvitsamir menn komist að niðurstöðu um að margt sé hægt að gera að söluvöru. Ég minni á fjallagrösin sem menn hafa verið að gera að söluvöru og þó að hv. 1. flm. hafi stundum nefnt fjallagrös í hálfkæringi þá veit ég að hann vill vel og hefur eingöngu notað það sem dulbúið skot á aðra og í raun talað í pólitískum tilgangi þegar slík umræða hefur farið fram. Það er ekki endilega víst að hann hugsi sem svo að ekki megi nytja fleiri afurðir landsins en skógviðinn sem hann fjallar um í tillögunni.

Ég vil bara lýsa því yfir að ég tel að það sé af hinu góða að fela landbrh. að kanna þá möguleika sem við höfum í innlendum trjáviði. Ég treysti því að landbrh. sem hefur mikinn áhuga á landsins gagni, gæðum og nauðsynjum, lifandi dýrum sem trjávexti, muni taka vel undir þetta mál og koma því til framgangs.