Nýting innlends trjáviðar

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:07:47 (3768)

2003-02-12 14:07:47# 128. lþ. 78.15 fundur 154. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þessa till. til þál. á þskj. 154 sem flutt er af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni um að Alþingi álykti að skora á landbúnaðarráðherra að kanna möguleika á að nýta innlendan trjávið sem fellur til við grisjun. Ég held að þetta sé hið besta mál og að það eigi að stuðla að framgangi slíkrar tillögu enda held ég að þessi tillaga muni ýta við landbrh. og landbrn. til að hugsa meira um þessi mál, þ.e. um nýtingu á landsins gæðum og þá ekki síst jarðargróðri. Ég held að í framhaldi af umræðunni í nefnd um þetta mál væri mjög mikilvægt að ráðuneytið beitti sér fyrir því og þar með ráðherrann að nota nú tækifærið og stórefla alls konar kennslu með námskeiðahaldi þar sem almenningi væri boðið að fríska sig upp og fá nýjar hugmyndir, bæði tæknilega og eins andlega, þ.e. um það hvernig hægt er að vinna úr málum. Það er mjög nauðsynlegt.

Löngum hefur verið rætt um að stórefla ætti þennan þátt í landbúnaðarmenntageiranum. Þrír landbúnaðarskólar eru í landinu sem gætu eflaust, ef þeir fengju möguleika til, eflt kennslu í þessum greinum og þá meina ég á breiðum grundvelli hvað varðar nýtingu landafurða. Ég held að þetta sé liður í því að nota landsins gæði. Á næstu áratugum mun falla til gríðarlegt magn af trjáviði í landinu vegna þess að, eins og kunnugt er, núna plöntum við milljónum trjáa á hverju ári. Þetta þarf þróunar við. Bændur og aðrir sem planta trjánum þurfa að kunna til verka, þ.e. að passa upp á trjáviðinn þannig að hann geti nýst sem best til þeirrar framleiðslu sem menn síðan hugsa sér í framtíðinni. Því er ábótavant og þess vegna tala ég um mikilvægi þess að efla kennslu, efla námskeiðahald úti í grasrótinni en ekki síður efla kennslu hjá búnaðarskólunum.

Margar aðrar auðlindir geta fallið undir þessa hugsun. Í sjálfu sér er ástæðulaust að nefna tegundir en verðmæti má úr mörgu vinna og margar landafurðir eru grunnur gríðarlegra auðæfa. Eins og ég hef áður komið að í ræðum mínum er gróður á norðurhjara nú þegar undirstaða milljarðaiðnaðar t.d. í lyfjabransanum. Þetta eru hlutir sem við þurfum að afla okkur þekkingar á og mennta okkur í þannig að menn fái áhuga og að þeir sem hafa getu fari í að vinna úr þessum mikilvægu hráefnum.

Þetta vildi ég bara segja um þáltill. Ég held að hún sé allra góðra gjalda verð. Ég held að breikka ætti umræðuna í nefndinni þannig að farið væri meira inn á menntun almennings og menntun þeirra sem hafa áhuga á að leggja slíkan iðnað fyrir sig til þess að lifa af honum. Sem kunnugt er þá verður oft svona iðnaður á grunni trjáviðar heimaiðnaður, þ.e. hluti af tekjum heimilis og er það allra góðra gjalda vert og getur nýst mörgum. En síðan geta aðrir fengið hugmyndir um að fara í stærri hluti eins og verksmiðjur sem framleiða gólfefni, parket og þess háttar. Þetta er því allt undir og mjög gott að þetta skuli koma fram hér. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, eins og ég sagði áðan í ræðunni, þar sem við plöntum nú árlega milljónum trjáa og þetta verður vaxandi auðlind eftir því sem áratugirnir líða.