2003-02-12 14:18:16# 128. lþ. 78.16 fundur 155. mál: #A niðurfelling lendingargjalda fyrir millilandaflug á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar þáltill. og vil bæta nokkrum orðum við greinargerð og ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar.

Eins og fram kom í máli hans er ferðaþjónusta orðin ein af öflugustu atvinnugreinum okkar og skilar hvað mestum gjaldeyri. En vandamálið, ef hægt er að tala um vandamál í þessari grein, er að uppbyggingin hefur verið hvað mest á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum ekki náð jafnri dreifingu út um allt land. Þetta væri í sjálfu sér í lagi ef svæðin í kringum höfuðborgina sem vinsælast er að fara með ferðamenn á, hinn svokallaði Gullfoss/Geysis-hringur og hér um nærsveitir, væru ekki oft og tíðum orðin ofsetin. Í rauninni er farið að sjá á landinu og eru uppi ráðagerðir um að finna einhverjar leiðir til að takmarka aðgang eða skipuleggja aðgang ferðamanna inn á þessi svæði. Því er mikilvægt að dreifa ferðamönnum um landið allra hluta vegna, bæði til þess að dreifa tekjum af ferðamönnum, dreifa álagi á náttúruna og eins að nýta þær fjárfestingar sem við höfum þegar lagt í því það eru ekki bara fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu. Víða um land er búið að fjárfesta með tilliti til aukinnar ferðaþjónustu en nýtingin hefur ekki skilað sér eins og væntingar hafa verið og er þá margt sem kemur til. Okkur hefur ekki tekist, eins og ég sagði áðan, að dreifa ferðamönnunum eða lengja ferðamannatímann.

Við búum svo vel að hafa í raun og veru þrjá flugvelli sem eru vel útbúnir til millilandaflugs. Keflavíkurflugvöllur er okkar aðalflugvöllur en við eigum tvo aðra sem eru vel útbúnir og gætu tekið við töluverðri umferð ef okkur tækist að fá flugfélög til að lenda þar. Þá þarf eitthvað til. Í fyrsta lagi þarf að markaðssetja svæðið utan höfuðborgarsvæðisins, að það sé ekki bara samasemmerki milli Íslands, Reykjavíkur og Bláa lónsins, heldur að samasemmerki sé milli Akureyrar og náttúrunnar þar í kring og Egilsstaðaflugvallar og náttúrunnar á því svæði, á Austurlandi og Norðausturlandi, þannig að við dreifum innkomu ferðamanna inn í landið. Það er númer eitt, tvö og þrjú að markaðssetja þessa tvo flugvelli til viðbótar því að markaðssetningin hefur fram að þessu nær eingöngu verið á Keflavíkurflugvöll, þ.e. það þarf ekki að auglýsa hann heldur höfuðborgarsvæðið. En við þurfum að gera meira, það þarf að kosta einhverju til í byrjun til að tryggja og treysta þá markaðssetningu, þ.e. hafa eitthvert agn, eitthvað sem flugfélögunum þykir til vinnandi að reyna fyrir sér á nýjum stöðum sem eru ekki eins öruggir og Keflvík. Niðurfelling lendingargjalda gæti verið einn liður í því.

Eins og hér kom fram hafa sveitarfélögin fyrir norðan og austan lagt fram fé til þess að fá flugfélög til að reyna reglubundið flug yfir sumartímann og það er auðvitað ekki þannig að þetta eigi eingöngu að lenda á þeim sveitarfélögum og fyrirtækjum sem eru á viðkomandi svæði, heldur á þetta að vera inni í þeirri heildarsýn sem er hluti af opinberri stefnu að styrkja þessa tvo flugvelli fyrir utan Reykjavík til þess að dreifa ferðamönnunum, dreifa þjónustunni og auka í raun tekjurnar af ferðamönnum því að það er staðreynd að aukin ferðaþjónusta úti um land styrkir ferðaþjónustuna í höfuðborginni líka.

Herra forseti. Árið 1997 setti samgrn. fram markmið í ferðaþjónustu sem voru í einum sjö liðum um hvernig byggja ætti upp áherslur í ferðaþjónustunni. Nýverið barst okkur í hendur greinargerð sem birt var í janúar sl., sem Anton Antonsson og Pétur Óskarsson tóku saman, og kallast ,,Markaðssetning ferðaþjónustu á landsbyggðinni á erlendum mörkuðum`` þar sem þeir fara mjög vandlega yfir markmið samgrn. frá 1997 og skoða hvernig þau hafa náðst úti um land. Það er í raun og veru sorglegt frá því að segja, herra forseti, að niðurstaða þeirra er sú að markaðssetning landsbyggðarinnar hafi orðið út undan, að markaðssetningin hafi gerst með þeim hætti að hún hafi að miklu leyti farið í gegnum okkar eigið flugfélag og þar með allri áherslunni beint á Keflavíkurflugvöll.

Þeir telja líka að mikilvægt sé að leggja áherslu á að laða hingað fleiri flugfélög, ekki leggja aðaláhersluna á okkar eigið flugfélag, Flugfélag Íslands eða Icelandair, heldur leggja áherslu á að fá önnur flugfélög til þess að lenda. Hluti af þeim vanda er markaðssetningin eins og ég sagði og síðan hefur verið leitað til ýmissa flugfélaga og einnig svokallaðra lággjaldaflugfélaga en í ljós hefur komið að lággjaldaflugfélögin setja fyrir sig flugvallarskattinn eins og hann er í dag, hvað þá að þeim finnist það vera spennandi kostur að leggja auk þess á sig aukakostnað við lendingu og flugtak ef flugvélunum er beint annaðhvort til Egilsstaða eða Akureyrar með millilendingu í Keflavík sem heppilegt gæti verið. Flugvallarskatturinn er hindrun í Keflavík hvað þá þegar við erum að tala um hin tvö svæðin sem við höfum hér nefnt þannig að allt stórt og smátt hjálpar til þess að laða að.