Meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:31:30 (3772)

2003-02-12 14:31:30# 128. lþ. 78.17 fundur 156. mál: #A meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um meðferðardeild við fangelsi fyrir geðsjúka afbrotamenn. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra í samráði við heilbrigðisráðherra að hefja þegar í stað undirbúning að uppbyggingu meðferðardeildar við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn í tengslum við starfsemi Heilbrigðisstofnunar Selfoss, fangelsið á Litla-Hrauni og réttargeðdeild að Sogni. Ákvörðun um úrræði fyrir þennan hóp sjúkra afbrotamanna liggi fyrir eigi síðar en 1. maí 2003.``

Með þessari þáltill. er svohljóðandi greinargerð:

Um langt skeið hefur verið mikið rætt um meðferðarúrræði fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn og hvernig hægt væri að koma þeim til aðstoðar. Hér er um mjög viðkvæman og alvarlegan málaflokk að ræða sem nauðsynlegt er að taka á svo fljótt sem auðið er. Sakhæfir geðsjúkir einstaklingar sem brotið hafa af sér hafa ekki í mörg hús að venda því að engin sérhæfð stofnun er til. Aðstandendur geðsjúkra afbrotamanna, sem og forsvarsmenn Geðhjálpar og Samhjálpar, hafa margoft bent á alvöru þessara mála og þau vandræði sem steðja að þessum hópi.

Jákvæð reynsla er af starfsemi réttargeðdeildarinnar að Sogni sem og fangelsisins að Litla-Hrauni við Eyrarbakka. Hvorug þessara stofnana er þó ætluð til að hýsa sakhæfa geðsjúka afbrotamenn. Því er brýnt að byggja eða kaupa húsnæði í grennd við þessa staði þar sem þeir geta átt athvarf.

Nauðsynlegt er að þessir afbrotamenn fái uppbyggilega meðferð um leið og þeir afplána dóma. Starfsmenn heilbrigðisstofnana á Suðurlandi eru vanir að liðsinna þessum sérhæfðu og viðkvæmu stofnunum og nokkur samvinna er á milli starfsmanna á Sogni og Litla-Hrauni. Sú reynsla mundi nýtast nýrri meðferðarstofnun og því er hyggilegt að byggja upp meðferðarfangelsi á þessum slóðum. Talið er að um sé að ræða um 20 sakhæfa geðsjúka einstaklinga. Verkefnið er brýnt og nauðsynlegt að taka á vandanum sem allra fyrst.

Ég hef reyndar heimsótt stofnanir eins og Sogn og rætt þar við forustumenn. Þar eru ákveðnar hugmyndir í gangi hvað þetta varðar og þar þarf að byggja við deild sem þessa, en starfsemin að Sogni mundi eflast ef byggð yrði meðferðardeild af þessum toga.

Það kemur líka fram í rökstuðningi að heilmikið samstarf er á milli þessara stofnana, þ.e. þeirra starfsmanna sem starfa á Litla-Hrauni, þeirra sem starfa að Sogni og einnig Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi.

Bæjarstjórn Árborgar hefur ályktað í þessa veru, þ.e. talið eðlilegt að þar sem um mjög sérhæfða starfsemi sé að ræða beri að efla starfsemi sem þessa á því svæði, enda er góð reynsla af henni.

Þannig vill til að hér í þingsal er fyrrverandi framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, hv. 2. þm. Vesturl., Magnús Stefánsson, sem ég veit að þekkir þessi mál býsna vel og ég gladdist þegar ég heyrði að hann bankaði í borðið og hefur kvatt sér hljóðs um þetta mál sem ég tel mjög brýnt að leysist sem allra, allra fyrst.