Uppbygging fiskeldisfyrirtækja vegna eldis kaldsjávarfiska

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:51:25 (3776)

2003-02-12 14:51:25# 128. lþ. 78.18 fundur 167. mál: #A uppbygging fiskeldisfyrirtækja vegna eldis kaldsjávarfiska# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 167 um stofnframlög til uppbyggingar fiskeldisfyrirtækja vegna eldis kaldsjávarfiska.

Tillagan hljóðar svona:

Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að setja fram tillögur um stofnframlög til uppbyggingar fiskeldisfyrirtækja vegna eldis kaldsjávarfiska.

Í grg. segir:

Eins og kunnugt er hefur Fiskeldi Eyjafjarðar hf. á Hjalteyri og Dalvík náð góðum árangri við klak á lúðuseiðum á undanförnum árum. Fyrirtækið er nú í fararbroddi í heiminum á þessu sviði og mun u.þ.b. 80% af klöktum lúðuseiðum í heiminum koma frá þessari stöð.

Eins og er getur Fiskeldi Eyjafjarðar hf. klakið út um 400 þús. lúðuseiðum á ári en gert er ráð fyrir að innan tveggja til þriggja ára muni seiðaframleiðslan vera orðin allt að einni milljón seiða.

Áframeldi lúðuseiðanna fer að mjög litlu leyti fram á Íslandi. Um 50--60 þús. seiði eru í áframeldi í fiskeldisstöð í Þorlákshöfn en talið er að til þess að skila arði í áframeldi sem er viðunandi þurfi seiðamagnið að vera um 100 þús. seiði í hverri stöð. Víða á landinu eru ákjósanleg skilyrði til að setja upp og starfrækja áframeldi á lúðuseiðum. Nú er megnið af lúðuseiðunum flutt út, m.a. til stöðva í Kanada og Wales. Þær hafa báðar notið stofnstyrkja til framleiðslunnar frá viðkomandi yfirvöldum í Wales frá Evrópusambandinu og í Nova Scotia frá ríkisstjórn Kanada. Hér eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi þar sem um er að ræða verðmætt hráefni og gott aðgengi að því. Því er fyllsta ástæða til að styðja opinberlega við áframeldi á þessum lúðuseiðum. Sama á að sjálfsögðu við um áframeldi þorskseiða og annarra tegunda kaldsjávarfiska sem nú er í þróun.

Virðulegi forseti. Við rekum okkur á það svo víða í atvinnulífinu að fyrirtækjaeigendur njóti ekki sama bakstuðnings og annars staðar gerist, þá sérstaklega hvað þetta varðar, áframeldið á lúðunni. Íslendingar eiga þess vegna nánast enga möguleika til að þróa þessa atvinnugrein á eigin forsendum, þ.e. áframeldi á þeim lúðuseiðum sem klakin eru hér í landinu. Það er miður og ein ástæðan til þess að hægt er að stunda þessa starfsemi í Þorlákshöfn er að það fyrirtæki fór á hausinn, var afskrifað af bönkum og þess vegna áframselt á mjög vægu verði, sem er ígildi stofnstyrks.

Það er þess vegna mjög mikilvægt að við hugum að þessum málum í þessari atvinnugrein til framtíðar, en eins og ég gat um í greinargerð eru áform fyrirtækisins á Hjalteyri þau að aukningin verði fleiri hundruð þús. seiði í framleiðslu á næstu árum.

Það er augljóst að margir staðir á Íslandi eru vel til þess fallnir að stunda áframeldi á kaldsjávarfiskum eins og lúðu, ekki síst í djúpum og lygnum fjörðum fyrir vestan þar sem aðgengi er að hreinum sjó og fyrir náttúrufarið væri gott að stunda þessa atvinnugrein.

Ég tel því mjög mikilvægt að þessi tillaga fái greiðan framgang í sjútvn. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu að verði tillögunni vísað til hv. sjútvn. til umfjöllunar og skoðunar. Ég vænti þess að málið fái vandaða umfjöllun.

Það er mikilvægt í þessu máli að hér um fiska að ræða sem eru úr okkar lífríki. Þar af leiðandi er miklu, miklu minni hætta á því að við spillum náttúrunni því við erum ekki að koma með utanaðkomandi tegundir inn í lífríkið eins og og raunin er t.d. hvað varðar laxeldi. Hér er fyrst og fremst rætt um lúðuna sem er úr okkar lífríki, eins og ég sagði áðan. Það á náttúrlega við aðra kaldsjávarfiska sem menn eru að fikra sig áfram með, t.d. þorskeldi. Þar hefur slátrun í smáum stíl farið fram og menn fikra sig áfram til að bæta þann rekstur.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu óska ég eftir að þessari tillögu verði vísað til hv. sjútvn.