Verndaráætlanir samkvæmt Ramsar-samþykktinni

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:18:31 (3780)

2003-02-12 15:18:31# 128. lþ. 78.20 fundur 194. mál: #A verndaráætlanir samkvæmt Ramsar-samþykktinni# þál., Flm. ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:18]

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um gerð verndaráætlana samkvæmt Ramsar-samþykktinni. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhann Ársælsson og Össur Skarphéðinsson.

Þessi tillaga var flutt á 127. þingi. Þá var henni vísað til nefndar en var ekki útrædd. Tillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela umhverfisráðherra að gera verndaráætlanir samkvæmt Ramsar-samþykktinni, um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, fyrir þau svæði hér á landi sem falla undir samþykktina. Þau eru Mývatns- og Laxársvæðið, Þjórsárver og Grunnafjörður.

Ramsar-samþykktin tók gildi hér á landi árið 1978. Þrjú svæði sem hér voru áðan nefnd hafa verið tilkynnt á skrá Ramsar-samþykktarinnar af Íslands hálfu, við gildistöku hennar Mývatns- og Laxársvæðið, Þjórsárver árið 1990 og Grunnafjörður í Borgarfirði árið 1996, eða skömmu eftir að hann var friðlýstur. Samkvæmt 3. gr. samþykktarinnar ber aðildarríkjum að semja og hrinda í framkvæmd áætlun sem stuðlar að vernd skráðra Ramsar-svæða, svo og að skynsamlegri nýtingu votlendis.

Svo er mál með vexti, herra forseti, að verndaráætlunin sem hér er verið að ýta á að verði samin hefur ekki litið dagsins ljós þó að um 23 ár séu liðin síðan við fullgiltum Ramsar-samþykktina. Því er í hæsta máta tímabært að taka til hendinni í þessu máli og semja verndaráætlanir fyrir þessi mjög svo mikilvægu náttúruverndarsvæði, þessi mikilvægu votlendissvæði, því að eins og við vitum þá eru þau ekki bara mikilvæg á landsvísu heldur líka á heimsvísu og hafa þess vegna verið tekin inn á skrá Ramsar-samþykktarinnar. Ábyrgð okkar er því ekki bara gagnvart Íslendingum og óbornum kynslóðum þeirra heldur einnig gagnvart alþjóðasamfélaginu.

Ramsar-svæðin á Íslandi eru samtals tæpir 59.000 hektarar. Aðildarríki sáttmálans eru 133 og samkvæmt upplýsingum mínum eru Ramsar-svæði í heiminum um 1.180 talsins.

Það liggur í hlutarins eðli, herra forseti, að vinna við gerð verndaráætlana kostar peninga. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Því finnst mér mjög mikilvægt að fram komi, þegar ég fylgi þessari tillögu úr hlaði í annað sinn á hinu háa Alþingi, að á núgildandi fjárlögum fyrir árið 2003 er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum fjárframlögum til gerðar verndaráætlana. Í raun hafa aldrei verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að setja fjármagn í gerð verndaráætlana nema þegar gerð var áætlun fyrir Jökulsárgljúfur. Þetta verður að hafa í huga því að án fjármagnsins verður illa staðið við góð fyrirheit samkvæmt því sem við höfum skuldbundið okkur til að gera samkvæmt Ramsar-samþykktinni.

Ég vænti þess, herra forseti, að þetta mál fái jákvæða afgreiðslu á Alþingi í vetur og að strax verði hugað að því við fjárlagagerð í haust á nýju kjörtímabili að Náttúruvernd ríkisins, sem nú heyrir undir Umhverfisstofnun, fái nægilegt fjármagn til þess að vinna að gerð þessara áætlana. Hér er ekki um neina stórkostlega fjármuni að ræða, herra forseti. Fram kemur í fréttaviðtali við starfsmann Náttúruverndar ríkisins frá því í sumar --- ég leyfi mér að vitna í það, herra forseti --- að tvö til þrjú mannár til dæmis taki að ljúka við gerð verndaráætlunar fyrir Þjórsárver. Ég mundi halda, herra forseti, að það væri algjört forgangsverkefni eins og málum er háttað að ljúka þeirri verndaráætlun og auðvitað að semja líka verndaráætlanir fyrir hin tvö svæðin sem Ísland hefur sett á skrá Ramsar-samþykktarinnar um svæði sem ber að vernda vegna þess að þau eru ómetanleg votlendi.

Að þessu sögðu, herra forseti, leyfi ég mér að æskja þess að málinu verði vísað til umhvn. og líka lýsa þeirri von minni að það fái afgreiðslu á 128. löggjafarþingi.