Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:30:51 (3781)

2003-02-12 15:30:51# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þannig er mál með vexti að sl. mánudag, þ.e. í fyrradag, óskaði ræðumaður eftir umræðum utan dagskrár um vaxandi atvinnuleysi og slaka í efnahagslífinu. Ég hugðist inna hæstv. ríkisstjórn eftir því hvort þaðan væri að vænta tillagna um aðgerðir til þess að slá á vaxandi atvinnuleysi, svo sem að flýta mannaflsfrekum framkvæmdum eða fara í einhver átaksverkefni til þess að skapa atvinnu. Atvinnulausum fjölgaði í síðasta mánuði, janúarmánuði, um rúmlega eitt þúsund manns frá áramótum og sem stendur eru um 6.150 manns á atvinnuleysisskrá, það eru rúmlega 3.300 karlar og tæplega 2.850 konur. Atvinnuleysi mælist þannig liðlega 4% og er þar með orðið hið mesta í fimm ár.

Þetta fer saman við það að hagkerfið hefur kólnað hratt niður, verðbólga er komin niður fyrir 2%, og þrátt fyrir nokkrar vaxtalækkanir að undanförnu virðast horfur á áframhaldandi samdrætti og uppsögnum. Aðstæður eru þar af leiðandi hagstæðar til þess að grípa til örvandi aðgerða, svo sem að flýta framkvæmdum eða fara út í sérstök átaksverkefni eins og áður hefur verið gert við sambærilegar aðstæður með því að hvetja til samstarfs ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins um slíka hluti.

Það var svo síðdegis í gær, herra forseti, sem ríkisstjórnin boðaði mikið útspil; 6.300 millj. kr. á að verja til vegagerðar, menningarhúsa og atvinnuþróunar. Ég vil taka það fram að það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin horfist þannig í augu við aðstæður og vaxandi atvinnuleysi og vilji grípa til aðgerða. Það er einnig ánægjulegt, herra forseti, að sjá gömul kosningaloforð endurunnin. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum hlynnt endurvinnslu og erum þar af leiðandi sátt við það að ríkisstjórnin fari inn á þá braut og endurvinni gömul kosningaloforð eins og um menningarhúsin sem nú á að veita til peninga réttum og sléttum fjórum árum eftir að þeim var fyrst lofað í aðdraganda kosninga sem þá voru í vændum. (Gripið fram í.)

Það er enginn vafi á því, herra forseti, að aukið fjármagn til uppbyggingar í samgöngumálum er skynsamleg ráðstöfun í atvinnu- og byggðalegu tilliti. Það mun án vafa hleypa lífi í verktakastarfsemi og byggingariðnað. Talandi um aukin verkefni í vegagerð og atvinnuleysi, herra forseti, er ekki úr vegi að spyrja að því í leiðinni: Er þess þá að vænta að Vegagerðin sjálf muni draga til baka áform um uppsagnir á fólki í ljósi aukinna verkefna á því sviði? Það skaut skökku við að fá fréttir af því nú á dögunum að meira að segja Vegagerð ríkisins hygðist segja sérstaklega upp fólki mitt í atvinnuleysinu.

En sá er galli á þessum ráðstöfunum að ætla má að þau störf sem að mestu leyti verði þarna til verði fremur einhæf, þ.e. fyrst og fremst í verktakastarfsemi og byggingariðnaði. Atvinnuleysi er auðvitað ekkert síður meðal kvenna og í mörgum starfsgreinum sem ekki er líklegt að fái, a.m.k. ekki beint, vinnu við störf af þessu tagi. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh., talsmann fyrir þessar ráðstafanir: Kemur það til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að líta jafnframt til fleiri sviða framkvæmda eða rekstrar til þess að efla atvinnu, t.d. í opinberri þjónustu varðandi framkvæmdir og uppbyggingu starfsemi á því sviði? Þar má t.d. líta til velferðarmála og þess að eyða biðlistum þar sem þeir eru fyrir hendi, fjölga starfsfólki þar sem á slíkt er kallað og bæta þjónustu þar sem henni er sannarlega ábótavant.

Í öðru lagi vil ég inna eftir því hvenær sé að vænta fjáraukalagafrv. fyrir Alþingi með þessum ráðstöfunum. Það liggur í hlutarins eðli að slíkt hlýtur að gerast sem og að auknar vegaframkvæmdir komi þá til umfjöllunar samhliða afgreiðslu vegáætlunar sem svo vel háttar til að þingmenn og þingmannahópar kjördæma eru einmitt með í höndunum þessa dagana.

Í þriðja lagi, herra forseti, væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvort hæstv. ríkisstjórn hefur á bak við þessar aðgerðir áætlanir eða mat eða úttekt á því hversu mörg störf sé líklegt að þessar aðgerðir skapi, hversu mikið þetta dugi til að höggva í atvinnuleysið og hvar þau störf muni þá fyrst og fremst koma fram þannig að hægt sé að átta sig á því og greina það hversu mikil úrlausn gagnvart atvinnuleysisvandanum þessar aðgerðir verði.