Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:41:18 (3783)

2003-02-12 15:41:18# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Því ber vissulega að fagna að ríkisstjórnin flýti framkvæmdum til að bregðast við vaxandi atvinnuleysi og þeim slaka sem nú er í efnahagslífinu. Öðrum þræði lýsir þetta þó nokkrum kosningaskjálfta, ekki síst þegar um er að ræða fjármögnun með kosningavíxli sem næstu ríkisstjórn er ætlað að greiða fyrir. Nöturlegt er þó að sjá hvernig hlutur höfuðborgarsvæðisins og kvenna, sem að meiri hluta til fylla hóp atvinnulausra, er fyrir borð borinn.

Í hlut höfuðborgarsvæðisins kemur aðeins um einn milljarður af 6,3 milljörðum sem verja á til atvinnuskapandi aðgerða, þ.e. rúmlega 15%. Samt er hægt að flýta fjölda framkvæmda í Reykjavík og nefni ég bara hér flutning Hringbrautar, Hallsveg, breikkun á Vesturlandsvegi og byggingu göngubrúa, auk þess sem hraða hefði mátt undirbúningi við mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut.

Ríkisstjórnin lítur líka algjörlega fram hjá því að 64% atvinnulausra á landinu öllu eru á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem höfuðborgarsvæðið hefur aðeins fengið 17% af fjárveitingum til nýframkvæmda á síðustu fjórum árum, eða rúma 4 milljarða af 24 milljörðum.

Ég spyr líka hæstv. forsrh. hvers vegna ekki sé hægt að verja hluta þessa fjármagns til starfa sem nýtast betur konum þegar meiri hluti atvinnulausra er konur. Vegaframkvæmdir nýtast ekki til að draga úr atvinnuleysi kvenna og ég spyr: Getur ráðherrann upplýst hve mörg kvennastörf þessi verkefni muni skapa? Maður spyr líka: Hvar voru kvenráðherrarnir í ríkisstjórn þegar ákveðið var að verja 6,3 milljörðum að mestu til starfa sem nýtast körlum? Ég spyr líka hvort ekki hefði verið skynsamlegt að greiða fyrir framkvæmdum vegna byggingar þekkingarþorps í Vatnsmýrinni sem renna mun stoðum undir atvinnusköpun til framtíðar.

Mín niðurstaða er því sú að þó að fagna beri því að verja eigi auknu fjármagni til atvinnumála vanti mikið upp á að þetta útspil sé nægjanlega vel ígrundað eða undirbyggt.