Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:45:45 (3785)

2003-02-12 15:45:45# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frjálslyndi flokkurinn styður góð mál. Við höfum marglýst því yfir í hv. Alþingi að við styddum mál sem væru til framfara og heilla þjóðarinnar hvaðan sem þau kæmu, hvort sem þau kæmu frá ríkisstjórn eða stjórnarandstöðunni.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mikil nauðsyn væri á að lagfæra vegakerfi landsins og það á auðvitað sérstaklega við um svæði eins og Vestfirði og Norðausturland þar sem vegir eru hvað lakastir, margir enn þá með óbundnu slitlagi, gömlu malarvegirnir að hluta til, þar þarf virkilega að gera átak. Þess vegna fagna ég því sem hér er lagt upp með að verja skuli sérstaklega inn á þessi svæði verulegum fjármunum til þess að gera þar gott átak í vegamálum til viðbótar við þær áætlanir sem menn hafa verið að reyna að vinna að á undanförnum árum og frekar lítill ágreiningur hefur verið um meðal þingmanna.

Það er auðvitað svo að við höfum öll okkar áherslur í því hvað best sé að gera í framkvæmdum á landi hér. Hér er verið að bregðast við vaxandi atvinnuleysi sem hefur verið að aukast mikið á undanförnum missirum, en jafnframt að fara inn í verkefni sem geta orðið okkur til mikillar gæfu um langa framtíð þegar við byggjum upp þjóðvegi landsins. Það er einfaldlega þannig að á Vestfjörðum höfum við iðulega getað bent á næg verkefni að þessu leyti og þar er hægt að stytta vegalengdir mikið með markvissum aðgerðum. Ég tel að það sé ein besta fjárfesting Íslendinga nú um stundir að geta bætt vegakerfið á þeim svæðum sem mikil þörf er fyrir það og jafnframt að stytta vegalengdir og efla þannig byggðir landsins um alla framtíð.