Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:59:08 (3791)

2003-02-12 15:59:08# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur greinilega komið í ljós á síðustu 24 tímum að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar mælist ákaflega vel fyrir meðal þjóðarinnar allrar, eða nærri því allra. Það er smá undantekning. Það virðist einn og einn aðili vera dálítið súr yfir þessu, samanber viðtal við formann Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu í morgun sem ber yfirskriftina: Ber sterkan keim af taugaveiklun. Og svo segir í viðtalinu við hann: ,,Hinu er ekki að leyna að þessi áætlun ber sterkan keim af þeirri taugaveiklun sem ríkir nú innan stjórnarliðsins í ljósi þess að það er skammt til kosninga ...``

(Forseti (ÍGP): Má ég fá örlítið betra hljóð í salinn --- og auk þess minni ég hv. þm. á að það þarf leyfi forseta til beinna tilvitnana.)

Ég bið forseta afsökunar á þessu. Ég bið þá um leyfi eftir á, eða á ég að lesa þetta aftur? Ekki er talin þörf á því.

[16:00]

Nú er það svo að það eru kosningar á fjögurra ára fresti, eins og allir vita, og ríkisstjórnin er að bregðast við aðstæðum í efnahagslífinu sem þarf að bregðast við hratt. Ef það skyldi vera að Samfylkingin vildi hafa þetta mál sem kosningamál tel ég það ákaflega vænlegt. Við skulum þá bara segja að þetta sé kosningamál, þá veit fólkið það og minnist þess í kosningunum hverjir voru í fýlu. Það liggur þá alveg fyrir. (SvanJ: Menningarhús á fjögurra ára fresti.) Við skulum vona það sem við vitum að þetta muni verða landsbyggðinni til gríðarlegrar blessunar. Að fjárfesta í þeim infrastrúktúr sem samgöngurnar eru er það albesta sem við getum gert og við skulum vera þakklát fyrir það. Það er vegna þess að við höfum verið að selja ríkisfyrirtæki sem peningarnir eru nú til til að gera þetta strax, þetta er enginn kosningavíxill eins og sagt var hér áðan.

Við skulum líka minnast þess að það eru fleiri atriði sem má skoða, eins og atvinnuleysi. Það er stórhættulegt. Það er mikil þörf á því að við ræðum opinberlega þá kreppuhagfræði sem menn eru að boða hér í Seðlabankanum. Við verðum að horfast í augu við það og tala um það.