Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:42:14 (3797)

2003-02-13 10:42:14# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Allt þetta kjörtímabil höfum við þingmenn Samfylkingarinnar bent á þann mikla byggðavanda sem felst í stórhækkun flutningsgjalda. Það er staðreynd, þó að samgrh. skelli skollaeyrum við henni, að þungaskattur hefur hækkað hjá flutningsaðilum um 40--50% frá árinu 1998. Þessi hækkun þungaskatts ásamt öðrum sköttum sem ríkisstjórnin leggur á flutningastarfsemi í landinu fer auðvitað þráðbeint út í verðlagið og það er aðalorsök hárra flutningsgjalda til og frá landsbyggðinni.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að eitt brýnasta byggðamálið sé að lækka flutningskostnað í landinu. Flutningskostnaðurinn heldur uppi allt of háu vöruverði til íbúa landsbyggðarinnar og það sem verra er, hann er að drepa alla atvinnustarfsemi líka. Þess vegna þolir þetta enga bið.

Ríkisstjórnin hefur nú eytt 15 mánuðum í að láta skrifa skýrslu þar sem niðurstöðurnar eru engar nýjar heldur vissum við þær allar fyrir. Þetta hefur þess vegna í raun verið tímaeyðsla. En það er líka dæmi um aðgerðaleysi hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum að ekkert hefur verið gert allt kjörtímabilið. En nú á að koma korteri fyrir kosningar með enn eina skýrsluna, vísa þessu til Byggðastofnunar og biðja um eitthvað meira til þess að ganga í málið.

Herra forseti. Ég hef allt þetta kjörtímabil bent á atriði í þessu sambandi. Núna á síðustu stigum eftir tillögur frá mörgum sem við mig hafa talað um flutningskostnað í landinu held ég að best sé að tillagan komi fram. Hún er að ef hæstv. ríkisstjórn og við á Alþingi kæmum okkur saman um að lækka eða fella niður alla skatta af flutningastarfsemi í landinu, opinberar álögur á flutningastarfsemi, þá gætum við gengið fljótt til verks. Þá þarf ekki fleiri skýrslur. Þá þarf ekki fleiri álit frá Byggðastofnun. Þá getum við strax séð lækkun flutningskostnaðar koma fram vegna þess að það er vitað mál að helmingur af tekjum flutningafyrirtækja renna beint til ríkissjóðs í formi ýmiss konar skatta.