Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:47:02 (3799)

2003-02-13 10:47:02# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Landsmenn eru ekki jafnsettir í skattgreiðslum til ríkisins. Landsbyggðarmenn hafa áratugum saman borgað hærri skatt í ýmsu formi en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Til skamms tíma borguðu landsbyggðarmenn fasteignaskatta af verðmæti eigna sinna eins og húsin í sjávarbyggðunum og til sveita væru öll staðsett á höfuðborgarsvæðinu.

Virðisaukaskatturinn leggst ofan á vöruverð og flutningskostnað og þeir sem fjærst búa frá höfuðborgarsvæðinu, mestu inn- og útflutningshöfn landsins, borga daglega hærri virðisaukaskatt og þungaskatt en höfuðborgarbúar. Í skýrslunni segir í niðurstöðukafla, með leyfi forseta:

,,Sé vilji til staðar að styrkja flutninga er að öllum líkindum ráðlegast að taka upp einhvers konar beina flutningastyrki til atvinnugreina sem talið er að eigi undir högg að sækja staðsetningar sinnar vegna.``

Herra forseti. Hvers vegna á bara að leiðrétta samkeppnisstöðu atvinnugreina en ekki einstaklinga á landsbyggðinni? Finnst þingmönnum það eðlilegt að halda áfram að mismuna landsbyggðarmönnum með hærri skattgreiðslum? Tryggingagjald kemur misjafnlega niður á atvinnugreinar og á landsvæði. Allt þetta hefur verið vitað um nokkurn tíma. Það þurfti ekki sérstaka skýrslu til að leiða það í ljós. Það hefur hins vegar skort vilja til að leiðrétta þessa stöðu.

Ég held að þegar farið er að boða skattbreytingar og skattalækkanir í landinu ætti sérstaklega að taka tillit til þess misræmis sem viðgengist hefur árum saman.