Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:51:20 (3801)

2003-02-13 10:51:20# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að jöfnun búsetuskilyrða á milli landshluta. Má þar nefna jöfnun á símkostnaði, jöfnun á námskostnaði framhaldsskólanema og jöfnun á húshitunarkostnaði. Jafnframt hefur verið hugað að flutningskostnaði og vöruverði.

Öllum hefur verið ljóst að flutningskostnaður leggst mjög misjafnlega á atvinnulíf og vöruverð í landinu. Það er jafnframt ljóst að ekki eru til neinar auðveldar lausnir á því máli eins og fram kom í skýrslunni sem við höfum verið að fara yfir. Mikilvægt er að lögð var vinna í þá skýrslu og vandinn greindur. Einnig er upplýsandi að lesa um styrkjakerfið í Noregi og Svíþjóð.

Virðisaukaskatturinn á flutningskostnaði kemur fram sem hækkun á þeim hluta vöruverðsins sem innifelur aukinn flutningskostnað. Þungaskatturinn hefur líka nokkur áhrif samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar en það verður að segjast eins og er að úrskurður Samkeppnisstofnunar um að ekki mætti veita afslátt á þungaskatti, sem gert var þegar komið var að markinu 95 þúsund km, hafði mjög slæm áhrif á vöruverðið.

Sú þróun sem verið hefur á undanförnum árum að flutningarnir hafa flust upp á þjóðvegakerfið frá sjónum hefur framkallað betri og örari þjónustu en dýrari. Birgðahald fyrirtækja hefur minnkað og fjárbinding sem því fylgir. En hvað er til ráða? Stærsta og besta ráðið er að auka fé til vegagerðar og auka fé til að stytta vegalengdir. Við hljótum að leggja megináherslu á það og er augljóst að stytting vegalengda hvar sem hægt er að koma slíku við hlýtur að hafa bein áhrif á flutningskostnaðinn. Það er því ánægjulegt að nú hefur verið ákveðið að auka mjög verulega fé til vegagerðar eins og komið hefur fram nú í vikunni.

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá meginniðurstöðu skýrslunnar að beinir flutningsstyrkir til fyrirtækja er það fýsilegasta sem ríkisvaldið getur horft til. Það skiptir meginmáli að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins á landsbyggðinni.