Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:53:43 (3802)

2003-02-13 10:53:43# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Hækkun vöruflutningskostnaðar á Íslandi er langt umfram neysluverðsvísitölu samkvæmt þeirri skýrslu sem hér er til umræðu með vísun til bls. 14 í þeirri sömu skýrslu. Staðfestingar eru einnig með gögnum frá flutningsfyrirtækjunum Flytjanda og Landflutningum. Þar er staðfest að flutningskostnaðurinn bitnar mest á hinum smæstu.

Stóru verslunarkeðjurnar virðast halda uppi eigin verðjöfnunarkerfi en kaupmaðurinn á horninu verður að greiða fullt gjald fyrir flutning og leggja á selda vöru ef hann á að lifa af. Því miður eru allt of margir þeirra að leggja upp laupana. Óskyldir aðilar, hvor í sínum staðnum á Vestfjörðum, eru sammála um að flutningskostnaður hafi hækkað um 25% að undanförnu á landflutningunum.

Virðulegi forseti. Fákeppni er ráðandi í landflutningum. Í því skjóli hafa orðið miklar verðhækkanir langt umfram vísitölu neysluvöruverðs. Ég leyfi mér að benda á að til eru ýmsar leiðir til að snúa þeirri þróun við. Með viljann að vopni er það hægt. Ég bendi á að unnt er að lækka flutningskostnað til Vestur- og Norðurlands verulega með lækkun gjalds í Hvalfjarðargöng. Spölur hf. skuldar ríkissjóði hátt í einn milljarð vegna ganganna. Um það er hægt að semja. Með niðurfellingu skuldarinnar má lækka gangagjaldið um allt að 20%. Ég skora á ríkisvaldið að beita sér fyrir þeirri landsbyggðarvænu aðgerð. Ég skora á ríkisvaldið að lækka almennt skatta á flutningskostnað. Þá næst árangur en það þarf að grípa til aðgerða strax.