Umræða um flugvallarskatta

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:05:07 (3807)

2003-02-13 11:05:07# 128. lþ. 79.93 fundur 431#B umræða um flugvallarskatta# (um fundarstjórn), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:05]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Nú mun vera að hefjast utandagskrárumræða um afnám flugvallarskatta. Í sjálfu sér fagna ég umræðu um það mál enda er það afskaplega mikilvægt og krefst vandaðrar umræðu. En ég geri þá athugasemd, herra forseti, við yfirstjórn þingsins að það mál skuli tekið hér sem utandagskrárefni þar sem frv. sama efnis var hér á dagskrá fyrir tveimur dögum og hefur verið vísað til hv. samgn. Ég veit ekki betur en að hv. frummælandi í þessari utandagskrárumræðu sé í hv. samgn.

Ég geri svo sem ekki athugasemd við að hv. frummælandi skuli óska eftir umræðunni. En ég geri alvarlega athugasemd við að yfirstjórn þingsins skuli opna fyrir utandagskrárumræðu um málefni sem hefur þegar verið tekið á dagskrá í formi frv., fyrir tveimur dögum og kemur til umfjöllunar hjá hv. samgn.