Umræða um flugvallarskatta

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:06:29 (3809)

2003-02-13 11:06:29# 128. lþ. 79.93 fundur 431#B umræða um flugvallarskatta# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Hjálmars Árnasonar vil ég segja að það er vissulega hárrétt ábending að þau mál sem hér á að ræða utan dagskrár á eftir hafa verið á dagskrá þingsins. Ég vil á hinn bóginn vekja á því athygli að á allra síðustu sólarhringum hafa orðið þeir atburðir í tengslum við þetta mál sem kalla eftir því að þessi mál séu rædd undir þeim nýju formerkjum.

Ég vísa hér einkanlega til þriggja atriða. Í fyrsta lagi minni ég á útspil ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum frá í gær. Í öðru lagi er ég að vísa til yfirlýsingar forsrh. um skattamál almennt frá í gær. Í þriðja lagi vísa ég til ákvörðunar samgrh. frá í fyrradag er lýtur að markaðssókn í ferðamannaiðnaði upp á um hálfan milljarð kr. samtals. Öll þessi atriði kalla á nýja nálgun að þessu viðfangsefni.

Ég held að full ástæða sé til að fara í þessa umræðu.