Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:12:14 (3813)

2003-02-13 11:12:14# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:12]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hún var fremur sérstök, umræðan sem hér fór fram í aðdraganda þessarar umræðu. Ég tel að í henni hafi kannski birst að í þinginu er mikil samstaða um að takast á við stöðuna sem nú er uppi hvað varðar álögur á flug til landsins og mikill vilji til þess að ná fram breytingum. Það eru ekki aðeins þeir hv. þm. sem hér voru nefndir áðan, hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Þuríður Backman, sem hafa hreyft við þessu máli. Eins hefur hv. þm. Kristján Pálsson vakið á því máls og ljóst að mikill vilji er til þess að taka á þessu.

En til að koma umræðunni út þeirri formumræðu sem hér fór fram áðan vil ég segja að tilefni þess að ég óskaði eftir umræðu utan dagskrá er fyrst og fremst sú að fyrir liggur að fjögur lággjaldaflugfélög sem hafa haft hug á því að fljúga til Íslands og gefa Íslendingum þannig kost á að ferðast til útlanda fyrir lægri fjárhæðir hafa hætt við eða látið af hugmyndum um að hafa hér viðkomu. Þeir hafa fyrst og fremst sett fyrir sig flugvallargjaldið.

Það er sérstakt í þessu máli að Halldór Ásgrímsson hæstv. utanrrh. hefur líka lýst stuðningi við þessi sjónarmið. Síðast en ekki síst hefur Eftirlitsstofnun EFTA lagt málið fyrir EFTA-dómstólinn í Brussel, þ.e. að skoðaður verði sá mismunur sem er á flugvallargjöldum að því er varðar millilandaflugið og hins vegar að því er varðar innanlandsflugið.

Til að reyna að skýra þetta, virðulegi forseti, er kannski rétt að ég reyni að draga fram hvernig málum er háttað núna. Ef flugfélögin sem hingað vildu koma seldu farmiða á u.þ.b. 10.000 kr. til landsins væru gjöldin í Keflavík um 3.000 kr. af því. Það hefur gert það að verkum að þessi flugfélög hafa leitað annað.

Af þessum 3.000 kr. eru um 1.550 kr. álögur beint frá íslenska ríkinu, þ.e. vopnaeftirlitsgjald og hins vegar svokallað flugvallargjald. Rúmlega 15% af þeim farmiða sem seldur yrði á tíu þús. kr. til Íslands mundi renna til ríkisins. Þetta hafa menn sett fyrir sig. Menn hafa litið svo á að þetta sé of hátt og þess vegna höfum við misst af því að þessi fjögur flugfélög tækjust á hendur að fljúga hingað.

[11:15]

Þá hefur hæstv. samgrh. sett fram þau rök að þessir fjármunir sem inn koma, u.þ.b. 600 millj., fari í að byggja upp flugvelli annars staðar á Íslandi. Það er alveg ljóst að það er einfaldlega ríkissjóður sem leggur út fyrir þessum gjöldum þannig að þau rök halda engan veginn. Á sama hátt má halda því fram að millilandaflugið greiði niður innanlandsflugið, og það gengur ekki heldur. Má nefna sem dæmi að u.þ.b. 13 milljarðar af innheimtum umferðarsköttum, u.þ.b. helmingur, rennur ekki til umferðarmála þannig að þessi röksemdafærsla heldur ekki, fyrst og fremst af þessum sökum. Það verður að segja það líka alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er einfaldlega ríkissjóður sem leggur út fyrir þessu og það er ekki hægt að leggja út af því að ef þessi gjöld verða ekki innheimt muni það koma niður á uppbyggingu flugvalla. Sjónarmiðið er að með því að ná þessum gjöldum niður hníga líkur til þess að við fáum fleiri farþega til landsins sem væri þá uppbygging fyrir ferðaþjónustuna. Við hljótum að æskja eftir því að reyna að fá fleiri farþega til landsins. Það er kannski þetta sjónarmið sem menn hafa rakið hér og hefur sýnt fram á að þetta heftir ferðamenn í að koma til landsins. Eiginlega einu mennirnir sem mæla þessu bót eru hæstv. samgrh., íslensku flugfélögin og ferðamálaráð --- það er dálítið sérstakur hópur --- og hugsanlega hæstv. fjmrh. Það er dálítið sérstakt að þessir aðilar skuli einir mæla þessu bót og maður spyr þá og beinir þeirri spurningu til hæstv. samgrh. hvort og hvernig hann hyggist bregðast við.

Nú liggur fyrir að við erum hjá EFTA-dómstólnum, og það hníga eiginlega allar líkur til þess að þetta gangi ekki upp. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða raunverulegu rök eru hér á ferðinni? Flest bendir til þess að hér sé á ferðinni tæknileg viðskiptahindrun gagnvart öðrum að komast inn á þennan markað.