Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:22:50 (3815)

2003-02-13 11:22:50# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:22]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að árétta að það er sjálfsagt að ræða um öll þessi mál en jafnframt vil ég vekja athygli þingsins á því að ég mælti fyrir þáltill. í gær um niðurfellingu lendingargjalda fyrir reglubundið millilandaflug á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum.

Staðreynd málsins er sú að þó að við séum að tala um 10 þús. kr. farmiðaverð héðan frá Keflavík erum við með um 40 þús. manns á áhrifasvæði Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla sem þurfa að hefja sitt flug með 18--24 þús. kr. kostnaði. Það er talin fær leið ef maður lítur til Evrópu að fella niður lendingargjöld og kostnað á flugvöllum úti á landi. Þannig er allt norðursvæði Skotlands skilgreint sem landsbyggð. Þar búa 400 þús. manns og þar eru ekki innheimtir skattar. Það er þessi hugsun sem ég set fram hvað varðar niðurfellingu lendingargjalda og ef menn eru tilbúnir að skoða þessa leið er leiðin fyrir Flugfélag Íslands, Icelandair, og öll önnur flugfélög opin til þess að notfæra sér þjónustuna inn á þessa velli með lággjaldafarmiðum.

Ég vildi bara að þetta kæmi fram í þessari umræðu, virðulegi forseti. Það er álit ferðaþjónustuaðila að það mundi mjög styrkja ferðaþjónustuna að fá aukið millilandaflug inn á aðra staði á landinu. Þarna eru tilbúnir tveir millilandaflugvellir sem, eins og kom fram hjá hæstv. samgrh., eru grundvallaratriði þess að við getum haft sterkan og góðan millilandaflugvöll eins og Keflavík í gangi. Öryggisins þarf að gæta með því að hafa varaflugvelli. Þess vegna vona ég að umræðan leiði til þess að menn skoði í alvöru þessa þáltill. sem ég setti fram í gær og fari í þá vinnu sem nauðsynleg er til þess að hefja og skapa grunn fyrir reglubundnu millilandaflugi á varavellina á Akureyri og Egilsstöðum.