Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:29:38 (3818)

2003-02-13 11:29:38# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:29]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þetta er þakkarverð umræða og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á þakkir skildar fyrir að vekja máls á henni því að hún hefur leitt það í ljós að hér er þverpólitísk samstaða um það að leggja af eða lækka til muna þennan óvinsæla og óskynsamlega farþegaskatt. Ég heyrði ekki betur en það vantaði eingöngu herslumuninn á að hæstv. samgrh. fyllti flokk annarra þingmanna í þessum efnum. Helsta vandamálið var að lög voru sett árið 1987 í þessa veru. Þá er málið einfalt, þá breytum við þeim lögum. Það tekur ekki nema 1--2 daga, herra forseti. Menn hafa breytt stærri hlutum á skemmri tíma en það.

Það er rétt í þessu samhengi að vísa til þess að í gær fór fram umræða um hvernig verja ætti og hvar fyndust fjármunir sem voru sannarlega tíndir upp úr hatti til þess að ráðast í aðgerðir í samgöngu- og menningarmálum, allt undir formerkjum þess að ráðast að atvinnuleysinu. Mér er skapi næst að halda, herra forseti, að einmitt aðgerð eins og þessi, að leggja af farþegaskatt og sprauta vítamíni inn í ferðaþjónustuna væri akkúrat leið til þess að bregðast skjótt og vel við í þessu erfiða atvinnuástandi. Ferðaþjónustan er mannaflafrek og svona aðgerð mundi taka fljótt við sér. Ég er sannfærður um það.

Í öðru lagi vil ég nefna það líka, eins og ég gat um undir öðrum formerkjum, að samgrh. hefur sótt sér fjármuni til þess að fara í markaðssókn í ferðamálum, sem er sannarlega hið besta mál. Það er svipuð upphæð sem hann hefur handa á millum í þeim efnum og við erum að tala um í lækkun skatta á ferðamenn. Mér er líka skapi næst að halda að þessi aðgerð, að leggja af þennan óskynsamlega skatt, væri sennilega betri í þessari markaðssókn en hin, að verja peningum og ráðstafa þeim hingað og þangað.

En allt að einu, það er ekkert vandamál, herra forseti, nú er bara að bretta upp ermar og vinda sér í verkið.