Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:36:31 (3821)

2003-02-13 11:36:31# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Komið hefur í ljós í þessari umræðu að hún var býsna þörf. Þrátt fyrir athugasemdir hv. þm. Hjálmars Árnasonar virðist niðurstaðan vera sú að ótrúlega víðtæk samstaða er um að nýta beri það tækifæri sem hæstv. forsrh. skapaði með tillögum sínum um skattalækkun á þessu sviði. Að vísu er það þannig að hv. þingmenn Sjálfstfl. og hæstv. samgrh. eru einna tregastir í taumi í málinu. Þeir slá svona úr og í. Þó sagði hæstv. samgrh., sem ég tel nýlundu í þessu máli, að hæstv. ráðherra væri reiðubúinn til þess að ræða lækkun skattsins. Þetta er vissulega nokkuð stórt skref hjá hæstv. ráðherra og ég vona að hæstv. ríkisstjórn drífi sig nú í að ræða þær skattalækkanir sem boðaðar hafa verið. Í morgun hefur verið bent á tvær leiðir sem hægt væri að fara og mundu skila sér nokkuð vel til samfélagsins, þ.e. að lækka skatta af flutningum innan lands og síðan að afnema eða lækka verulegan þennan svokallaða flugvallarskatt.

Hér hafa mörg rök verið færð fyrir málinu. Það hafa menn verið að gera á undanförnum missirum. Hins vegar er sérkennilegt að heyra hæstv. ráðherra tala um að það sé fyrirsláttur hjá lággjaldaflugfélögum að segja að flugvallarskatturinn hindri það að þau fljúgi hingað. Það kemur hins vegar fram hjá talsmönnum m.a. ferðaþjónustunnar að þeir skilja ekki að hæstv. ráðherra skuli þannig mæla gagnvart þessu máli og stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar benda á að stöðin standi í raun býsna vel í samkeppni við aðrar stöðvar gagnvart öllum öðrum gjöldum en þessum gjöldum.

Herra forseti. Ég held að ljóst sé að við hljótum að stefna að því fyrir þinglok að breyta þeim lögum sem hindra það að við lækkum eða afnemum þennan skatt.