Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:43:09 (3824)

2003-02-13 11:43:09# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það mun ekki og hefur ekki vafist fyrir sjálfstæðismönnum að standa fyrir lækkun skatta. (Gripið fram í.) Það þekkir hv. þm. mjög vel. (Gripið fram í.) Hann veit það og þekkir. Það er nauðsynleg upprifjun, ekki síst fyrir þingmenn í yngri kantinum, að fara yfir það hverjir voru við völd þegar þessi löggjöf var sett. Þingmaðurinn gæti kannski flett því upp í minninu hverjir voru við völd 1987, hver var í fjmrn. þá m.a. Af mörgu er að taka (Gripið fram í.) ef hv. þm. vilja fara inn í þessa umræðu á þann veg.

Ég hef sagt að í fyrsta lagi þurfum við að standa þannig að gjaldtöku á flugvöllum, ekki síst millilandaflugvöllunum okkar, að það hefti ekki flug og hins vegar þurfum við af mikilli ábyrgð að tryggja ríkissjóði tekjur til þess að standa undir flugvallarrekstri, uppbyggingu flugvalla og flugöryggismála. Þetta er grundvallaratriði.

Lítum nú á stöðuna vegna þess að hér er látið að því liggja að flugfélögin fljúgi ekki til landsins vegna þess að skattar séu háir. Sjö svokölluð lággjaldaflugfélög munu fljúga til Íslands á þessu ári, sjö flugfélög. Að vísu hefur eitt hætt við vegna sérstakra aðstæðna sem tilgreindar voru af þeirra hálfu. Það vekur athygli okkar Íslendinga á því hversu mikilvægt er að eiga okkar eigin flugfélög. Við treystum á okkar flugfélög til þess að hafa öruggt samband við landið. Þetta minnir okkur á það.

Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til þess, og vil bara endurtaka það og ítreka, að ég er reiðubúinn til þess að sjálfsögðu --- það hefur margsinnis komið fram af minni hálfu --- að standa að því að lækka gjöld, bæði skatta og þjónustugjöld á flugvöllunum. En við þurfum að standa eðlilega að því. (Forseti hringir.) Ekki þarf að grípa til nokkurrar neyðaraðgerðar núna. (Forseti hringir.) Ferðamönnum fjölgar stöðugt m.a. með lággjaldaflugfélögum. (SvH: Davíð á nóga peninga.) (LB: Matthías Á. Mathiesen var samgrh. 1987.)