Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:12:35 (3829)

2003-02-13 12:12:35# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. veit væntanlega er út af fyrir sig ekki þörf á að ljósleiðari liggi inn á gafl hverrar byggðar heldur nýtist þar örbylgjutæknin sem er nýr möguleiki. Í þessu tilviki er það svo. Ég veit ekki betur en að þörfum fyrirtækja og stofnana á þessu svæði sé fullnægt með þeirri tækni þó að ljósleiðarinn liggi ekki alla leið þangað. Það er auðvitað aðalatriðið og við þekkjum það.

Ég þekki það frá byggðum í Borgarfirði, að þar er flutningsgetan aukin með slíkri tækni þannig að fullnægjandi reynist. Það er ekki hægt að einblína eingöngu á ljósleiðara, eins og ég segi, inn á gafl í hverri byggð eða inn á hvert heimili. Sem betur fer má fullnægja þessari eftirspurn öðruvísi.

Ég vil aðeins benda á útboð og samninga um þjónustu fyrir rannsóknastofnanir, háskólastofnanir og skólastofnanir. Það er afar mikilvægt og segir okkur hve mikla áherslu ríkisstjórnin leggur á uppbyggingu fjarskiptaþjónustunnar. Menntmrh. beitti sér fyrir því að ríkið keypti gagnaflutningsþjónustu og að því er unnið. Ég trúi því að ríkisstofnanir vítt og breitt um landið og fleiri stofnanir verði áður en varir komnar inn í það net skólastofnananna. Það verður kannski mikilvægasta aðgerðin ásamt öðru til að byggja þetta upp.