Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:17:09 (3831)

2003-02-13 12:17:09# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Uppbygging GSM-kerfanna á Íslandi hefur verið tekin mjög föstum tökum. Það er raunveruleiki. Símafyrirtækin hafa verið að byggja upp GSM-símakerfið í landinu og segja má að sú uppbygging hafi gengið hraðar en allra bjartsýnustu menn þorðu að vona. Það þekkja þeir sem ferðast um önnur lönd að mjög víða er ekki hægt að nota GSM-síma, því miður. Hvers vegna skyldi það nú vera? Jú, það er vegna þess að símafyrirtækin og þá um leið notendur treysta sér ekki til þess að byggja þetta hraðar upp en raun ber vitni.

Ég tel ekki skynsamlegt að gera það að alþjónustukvöð á símafyrirtæki að alls staðar í landinu sé hægt að nota GSM-síma. Hvers vegna? Jú, allt bendir til þess og þær upplýsingar sem við höfum, að það yrði svo dýrt --- og sá kostnaður mundi leggjast á alla notendur --- að það væri óframkvæmanlegt miðað við þá tækni sem við búum yfir í dag.

Ég er hins vegar sannfærður um að tækninni muni fleygja svo hratt fram að áður en langt um líður verði þessi þjónusta til staðar. Ég spái því. En ég held að ekki sé skynsamlegt að leggja þær kvaðir á símafyrirtækin eins og hlutirnir eru núna. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti í þessum efnum sem öðrum og verðum að bíða með eitthvað af samtölunum okkar þangað til við komumst inn á svæðið sem þjónusta er veitt á.