Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:23:44 (3834)

2003-02-13 12:23:44# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:23]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt hér fyrir frv. til laga um fjarskipti sem kemur í stað laga sem samþykkt voru 1999. Það er kannski besta staðfestingin á því, herra forseti, hvað mikið hefur gerst í fjarskiptaheiminum að þau lög sem við settum 1999 þurfum við að taka nú upp og í raun semja ný. Það er hið besta mál og ekkert annað en fagnaðarefni.

Það sem er kannski merkilegt í þessu nú og hæstv. samgrh. hælir sér mikið af er sú framþróun og framsýni sem átt hefur sér stað á Íslandi í fjarskiptum eða símaeign manna eða hvað það er. Áður hefur komið fram, herra forseti, að við Íslendingar höfum að sjálfsögðu sett Íslandsmet í farsímaeign eins og ýmsu öðru ... (Samgrh.: Heimsmet.) Heimsmet vildi ég nú sagt hafa --- eins og í svo mörgu öðru þegar miðað er við höfðatölu.

En stóri aðilinn úti í heimi sem menn eru sem betur fer misjafnlega ánægðir með og bera misjafnan hug til, þ.e. Evrópusambandið og EFTA, hefur verið þar í fararbroddi við að senda frá sér tilskipanir, ályktanir og reglur sem ríki hafa þurft að taka upp. Eiginlega má segja sem svo að þessi hraða bylting hafi verið mikið knúin áfram af þessu apparati þarna úti í heimi sem ég ætla að fá að kalla svo.

Kannski er það merkilegasta við þetta, eins og ég sagði áðan, að við þurfum að breyta þessum lögum svo skömmu eftir að þau tóku gildi sem var 1999. Það er auðvitað til þess að innleiða í íslensk lög þær breytingar sem orðið hafa á fjarskiptalöggjöf Evrópusambandsins og EFTA og hafa verið birtar í nýjum tilskipunum Evrópusambandsins sem m.a. er getið hér um. Þetta eru fimm tilskipanir og ein ályktun eða hvað það nú heitir.

Það merkilegasta í þessu frv. svona fljótt á litið er í 22. gr. frv. þar sem lagt er til að jöfnunargjaldið skuli lagt á fjarskiptafyrirtæki nú. En áður og í gömlu lögunum var það eingöngu lagt á fyrirtæki sem voru með talsímaþjónustu eða gagnaflutning. Þetta er ákaflega merkileg breyting og henni ber að fagna, eins og ég sagði áðan, vegna þess að við þurfum á því að halda í okkar dreifbýla landi að efla vel jöfnunarsjóðinn, jöfnunargjaldið, sem á að standa undir alþjónustukvöðinni. Hér er lagt til að þetta verði 0,12% af bókfærðri veltu fyrirtækja sem þá verða á fjarskiptamarkaði. Veltan á fjarskiptamarkaði hér er talin vera að stofni til í kringum 26 milljarðar kr. og áætlaðar tekjur fyrsta árið eftir að þetta fer að virka --- þetta á að taka gildi 1. janúar 2004 --- eru í kringum 31 millj. kr.

Þetta eru kannski þau merkustu nýmælin í frv. sem við setjum hér upp. Ég ítreka og segi: Mér hugnast mjög slíkir jöfnunarsjóðir, jöfnunarsjóðir sem m.a. verður hægt að nota til þess, sbr. það sem ég kom inn á í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra áðan, til þess að búa svo í haginn að allir landsmenn sitji við sama borð, hvar svo sem þeir búa á landinu, við að fá þessa sjálfsögðu þjónustu sem er tenging við ljósleiðaranet og tenging með tveggja megabæta tengingu í framtíðinni sem auðvitað er hið besta mál.

Ég vil segja það líka, herra forseti, að ég held ekki að mikill ágreiningur sé um það frv. sem hér er lagt fram. Eftir að hafa farið í gegnum það sýnist mér það vera allt hið besta mál. Spurningin er kannski frekar eins og svo oft áður hvort eitthvað vanti hér inn miðað við íslenskar aðstæður eða miðað við þær aðstæður sem þó eru nú sífellt að detta út af. Því er ekki að leyna, herra forseti, að um frv. um fjarskipti sem við ræddum og samþykktum 1999, voru deilur og við það blönduðust deilur um hugsanlega sölu Landssíma Íslands og hlutafélagavæðingu hans vegna þess að þar fannst mörgum, hinum litlu í þessum rekstri, ýmis löggjöf byggjast allt of mikið í kringum stóra bróður, þ.e. Landssíma Íslands.

Þar sem ég á sæti í samgn., herra forseti, minnist ég þess að bæði í umræðunni um fjarskiptin, Póst- og fjarskiptastofnun, og um hlutafélagavæðingu Landssímans kvörtuðu mjög margir litlir aðilar yfir markaðsyfirburðum Landssímans og töldu oft að þeir markaðsyfirburðir væru notaðir til þess að koma í veg fyrir, þ.e. hamla vexti minni fyrirtækja sem voru að hasla sér völl á þessu sviði.

Nú hefur ánægjuleg þróun átt sér stað, herra forseti. Ég er 100% sammála því að mikil og öflug samkeppni á þessum markaði kemur neytendum til góða. En nú hefur það gerst að fyrirtæki hér á fjarskiptamarkaði sem voru að hasla sér völl á þessum árum sem ég hef gert að umtalsefni, t.d. Tal, Halló -- frjáls fjarskipti og Íslandssími, hafa öll verið sameinuð í eitt fyrirtæki sem heitir í dag Íslandssími. Það verði að leita að nýju nafni og ekki er nema gott eitt um það að segja. Nú hafa þessi fyrirtæki verið sameinuð og eru sterkari og öflugri til að veita stóra aðilanum, Landssíma Íslands, verðuga og harða samkeppni sem alveg hiklaust mun koma landsmönnum öllum og neytendum til góða. Það er ekkert nema gott eitt um það að segja að samkeppnin skuli vera sem allra mest í þessu. Hún verður náttúrlega eins og önnur samkeppni að vera innan skynsamlegra marka þannig að menn baki sér ekki fjárhagsleg vandræði sem geta leitt til gjaldþrots einhvers aðila sem fer af markaðnum vegna þess að þá er það nú skammgóður vermir.

[12:30]

Herra forseti. Það kom fram áðan að það hafa átt sér stað geysilega miklar og örar breytingar frá því að við ræddum þau frv. sem ég hef hér gert að umtalsefni, gömlu lögin um fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun. Þetta var mikil og hröð breyting sem átti sér stað, það má segja að bylting hafi átt sér stað, en auðvitað er það hárrétt sem hér hefur komið fram að vegna bakslags í efnahagsmálum heims, skulum við orða það, hefur auðvitað slegið svolítið í baksegl, eins og hér kom fram, með þriðju kynslóð farsíma og fjárfestingar á því sviði. Það er sannarlega rétt að ýmsar væntingar sem voru á þessum uppgangsárum hafa brugðist, mörg fyrirtæki smá sem voru að þróa alls konar hugbúnað inn í þessa veröld alla hafa því miður gefist upp og farið á hausinn.

Eitt atriði vildi ég nefna líka. Eins og við vorum svakalega ánægð, og sumir allt að því mjög grobbnir, yfir því sem við settum í gömlu lögin, þ.e. um alþjónustukvöð í ISDN eða, eins og menn segja, ,,128 kb flutningi``, hygg ég að við getum sagt í dag, og sennilega verið sammála um það, að það sem vorum svo ánægð með á þessum árum, fyrir þremur árum, er nánast orðið úrelt í dag, þ.e. ISDN-hugmyndin inn á nánast hvert heimili, alþjónustukvöðin. Ég held að í dag sé þetta, ef maður tekur líkingu af bíl, eins og að ef við hefðum verið að keyra um á Bens á þessum árum værum við komin yfir á Trabant í dag. Þróunin er nefnilega, herra forseti, svo geysilega hröð í þessu, það sem var sjálfsagður hlutur og mikið og gott atriði fyrir nokkrum árum er úrelt í dag, og þarna er ég auðvitað að tala um muninn á ISDN- og ADSL-þjónustu. Um þessar mundir er náttúrlega svo geysilega hröð bylting að eiga sér stað í þessum heimi, t.d. úti um allt land eru á æ fleiri stöðum hópar að taka sig saman til þess að tryggja sér ADSL-þjónustu inn í sitt byggðarlag. Það má aðeins geta þess, herra forseti, að Landssíminn setti þau skilyrði á mörgum smærri stöðum á landsbyggðinni að ekki færri en 30 aðilar tækju sig saman til þess að eiga möguleika á að fá ADSL-þjónustu. Þetta er allt hið besta mál.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess hér og nú að fara í gegnum það frv. sem hér er. Þetta eru margar greinar og eins og ég sagði áðan er þetta sett eftir hinni nýju fjarskiptalöggjöf Evrópusambandsins til þess að innleiða hana, það eru þessar fimm tilskipanir sem hafa komið til og ein ákvörðun um tíðnimál sem hér er verið að innleiða ásamt því að færa þetta kannski meira í takt við það sem er í dag miðað við þau fjarskiptalög sem tóku gildi 1. janúar 2000. Þau tóku ekki gildi fyrr en þá, og sama má segja um það sem við ræðum hér á eftir, þ.e. um Póst- og fjarskiptastofnun. Margt af því sem við settum þarna í lög hefur gengið eftir. Margt hefur hins vegar ekki gengið eftir og kemur þá upp í huga minn t.d. það að menn geti skipt um símafyrirtæki og farið með sitt eigið farsímanúmer. Það hefur dregist, og það ber að hafa í huga, herra forseti, að það er náttúrlega í takt við ýmislegt annað sem sló í baksegl í efnahagsmálum heimsins að þetta hefur kannski ekki heldur gengið eftir eins hratt og menn vonuðu vegna þess að það er mjög mikill kostnaður fyrir aðila að setja upp þær stöðvar sem þarf til þess að þetta geti átt sér stað. Vonandi skapast sú staða í efnahagsmálum og rekstrarskilyrðum fjarskiptafyrirtækja að þetta komi sem allra fyrst.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, tel ég ekki ástæðu til að fara mikið meira í gegnum þetta, það gefst kannski tími til þess á eftir, og þó, jú, hér í lokin vildi ég segja, herra forseti, vegna þess að ég greip með mér skýrsluna sem hæstv. ráðherra vitnaði til áðan, þ.e. niðurstöðu starfshóps um kostnað við gagnaflutning og eflingu fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu á Íslandi sem gefin var út af samgrn., að auðvitað kemur hér upp í huga minn sá munur sem er á milli íbúa í þessu landi, þ.e. hvað varðar kostnað við fjarskipti. Þá hefur það komið fram og er enn að sá kostnaður er því miður of mikill og ekkert annað en 100% jöfnuður milli landsbyggðarbúa og höfuðborgarbúa er það sem stefnt skal að í þessum málum. Og ég tel, herra forseti, að í okkar litla landi, þó að það sé dreifbýlt, sé það einn besti möguleikinn til þess að allir sitji við sama borð, þ.e. í sambandi við greiðslu fyrir fjarskipti. Sannarlega voru góðar tillögur settar fram við sölu Landssímans um að jafna þennan kostnað --- það var auðvitað tengt sölu Landssímans þannig að í þeim efnum hefur slegið í baksegl. En bara til þess að hafa sagt það enn einu sinni hér, herra forseti, þeim jafnaðarmannahugsjónum sem felast í þessum tilskipunum og öllu sem sett er fram varðandi fjarskipti er ég innilega sammála og ánægður með og vil hafa sagt það hér undir þessum lið að ekkert annað en fullkomið jafnrétti milli íbúa landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis til greiðslu á kostnaði fyrir fjarskipti, án tillits til hvar þeir búa, er það sem við auðvitað eigum að stefna að.