Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 13:32:06 (3837)

2003-02-13 13:32:06# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði vonast til að hæstv. samgrh. yrði hér fljótlega viðstaddur. Ég hefði áhuga á að leggja aðeins fyrir hann spurningar í tengslum við þetta mál.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. ráðherra er í húsinu og það verða send boð.)

Ég ætla ekki að hafa hér langa ræðu enda eru kannski ekki mikil efni til. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur þegar talað af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og gert grein fyrir áherslum okkar og þar á meðal einnig tveimur tillögum sem varða fjarskiptamál sem við höfum flutt og liggja báðar fyrir þinginu. Það eru 46. og 546. mál þessa þings. Önnur fjallar um breiðbandsvæðingu landsins. Það er tillaga um að gert verði stórátak í að ljúka uppbyggingu fjarskipta og gagnaflutninganetsins á landinu á næstu þremur árum þannig að fyrirtæki, stofnanir og heimili, hvar sem er á landinu hafi aðgang að bestu fáanlegu fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikum með breiðbandi eða annarri jafngildri tækni. Hin tillagan fjallar um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu og að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á helstu þjóðvegum landsins.

Herra forseti. Ég hygg að báðar þessar tillögur séu þess eðlis að því verði ekki á móti mælt að þær taka á brýnum þjóðþrifamálum. Það er eðlilegt að það sé rætt hér í tengslum við ný fjarskiptalög eða endurskoðun á fjarskiptalögum. Hér er um að ræða ný heildarlög um fjarskipti. Þau fela að vísu ekki í sér umtalsverðar breytingar á því fyrirkomulagi sem innleitt var í áföngum á árunum frá því um 1995--1996 og fram um 2000, en þá tók umhverfi fjarskiptamála hér miklum breytingum eins og kunnugt er. Það gerði það annars vegar með breytingum á ríkisfyrirtækinu Pósti og síma sem var hlutafélagavætt og síðan skipt upp í tvö fyrirtæki. Til stóð síðan að einkavæða það og mætti margt um þær hörmungar allar segja. En af því varð ekki og nú er það fyrirtæki rekið nær alfarið í eigu ríkisins.

Síðan hefur löggjöfin auðvitað tekið miklum breytingum og allt lagaumhverfi og starfsumhverfi fjarskiptanna. Það er í og með vegna þess að við höfum innleitt og okkur ber að innleiða evrópskan rétt á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum þar sem opnað er fyrir samkeppni. Menn fara reyndar út í alls konar lagaflækjur, ef svo má að orði komast, til þess að reyna að gera samkeppni mögulega við aðstæður þar sem einn af samkeppnisaðilum á kannski að uppistöðu til þær fjárfestingar, þau tæki sem notuð eru fyrir viðskiptin, í þessu tilviki samgönguæðar fjarskiptanna um landið. Þá koma til sögunnar ákvæði af því tagi að mönnum sé skylt að opna net sitt fyrir öðrum og skylt að gera samninga þar um hvernig samkeppnisaðilar geti þá keppt á þessu þjóðvega- eða æðakerfi fjarskiptanna þó svo það sé í eigu eins aðila.

Um þetta ætla ég nú ekki að ræða sérstaklega í löngu máli hér, herra forseti, enda er kannski ekki verið að breyta því mikið. Það sem ég vildi nefna er í fyrsta lagi staðan í fjarskiptamálum okkar almennt. Ég vil fara nokkrum orðum um hana. Hún er sumpart góð. Ég held að segja megi að enn njótum við góðs af því að hér byggðist upp mjög öflugt fyrirtæki á sviði fjarskipta, þ.e. Póstur og sími. Ég hef stundum nefnt það í tengslum við deilur um einkavæðingu eða ekki einkavæðingu fyrirtækja að það er dálítið merkilegt að ofan í allan róginn sem búið er að syngja yfir þjóðinni um opinberan rekstur og hversu hann sé allur saman hábölvaður og að mikið markmið sé og keppikefli í sjálfu sér að koma þessu úr höndum hins opinbera, að útkoman á því var nú ekki verri en svo í tilviki Pósts og síma að Ísland bjó við fjarskipti alveg í fremstu röð í Evrópu og þau voru með því ódýrasta sem þekktist. Tækninýjungar voru innleiddar þannig að Ísland var í allra fremstu röð við að taka upp hluti eins og NMT-símakerfið þegar það kom og síðar GSM-símakerfið. Gagnaflutningamöguleikar verða að teljast allgóðir hér innan lands. Þeir voru það a.m.k. En því er ekki að neita að það læðist að manni sá grunur að nú sé að hægja á þeirri þróun og það skorti orðið talsvert upp á að við höldum í við kröfurnar eins og þær fara hraðvaxandi.

Menn þurfa ekki að vera neinir sérstakir sérfræðingar á sviði tölvumála eða gagnaflutninga til að átta sig á því hve kröfurnar vaxa gríðarlega. Með hverri nýrri kynslóð eða nánast hverju nýju framleiðslunúmeri á vélum vaxa afköstin eða geta tækjanna margfalt. Að sama skapi þarf auðvitað flutningsgetan að að vera í samræmi við afl þeirra véla og þess búnaðar sem notaður er. Það sem maður óttast í því sambandi er að landsbyggðin verði sérstaklega út undan í þeim efnum.

Herra forseti. Þess vegna höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, flutt þessa tillögu um sérstakt átak í breiðbandsvæðingu landsins, þ.e. að með breiðbandinu eða annarri jafngildri tækni hvað varðar afköst og gæði verði öllum landsmönnum, án tillits til búsetu, tryggðir þessir möguleikar, bestu fáanlegu fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikar. Það er gríðarlega stórt jafnréttis- og framfaramál og kannski eru fá mikilvægari jafnréttismál í nútímanum en það, ef við lítum til þeirra almennu aðstæðna sem mönnum eru búnar og möguleika til að keppa á sviði viðskipta eða vera fullgildir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu á hvaða vegum sem það nú er.

Ég vil láta það koma hér fram, herra forseti, að ég hef setið í nefndum og starfshópum á vegum Norðurlandaráðs sem hafa fjallað sérstaklega um þessi mál. Þar á meðal var starfshópur sem skilaði einmitt skýrslu fyrir um tveimur árum síðan ekki síst um hlutverk hins opinbera í sambandi við fjarskiptabyltinguna og upplýsingasamfélagið. Eindregin niðurstaða þeirra þingmanna sem þar sátu í starfshópi og komu úr öllum flokkum eða spönnuðu allt hið pólitíska litróf var að við aðstæður eins og þær sem við væri að glíma á Norðurlöndunum, kannski helst að slepptri Danmörku, þá væri borin von til annars en að hið opinbera yrði að standa á bak við það að tryggja landsmönnum úti í hinum strjálbýlli héruðum og afskekktari landshlutum sambærileg gæði og sambærilegan aðgang að þessari þjónustu.

Eigi ekki að koma til ný stéttaskipting í nútímanum og í framtíðinni sem m.a. og ekki síst grundvallist á því hverjir hafa þessa þekkingu og tækni á valdi sínu og hverjir hafa aðgang að henni, bæði tæknilega hvað varðar gæði og hvað varðar kostnað, þá verður að tryggja þarna jafnrétti og það getur enginn annar en hið opinbera. Markaðurinn mun aldrei sjá um að menn fái jafnóðum innleiddar nýjustu tækniframfarir í þessum efnum í Finnmörku, Norður-Skandinavíu eða þess vegna á landsbyggðinni á Íslandi. Markaðurinn getur annast um þjónustuna og hann getur sinnt verkefnunum. En það opinbera verður með einum eða öðrum hætti að standa þarna á bak við. Það var niðurstaða þessa starfshóps og það var ekki vegna þess að menn væru sérstakir ríkisrekstrarsinnar þar sumir hverjir, gallharðir hægri menn sem í þessu störfuðu, heldur einfaldlega vegna þess að menn voru raunsæir, þeir horfðust í augu við veruleikann. Þá er að svara spurningunum um það hvernig þetta verði best tryggt? Jú, það er auðvitað handhægt að gera það og var einfalt að gera það á Íslandi á meðan ríkið rak fjarskiptafyrirtæki og leit á það sem þjónustufyrirtæki og lagði því skyldur á herðar, skaffaði því ekki bara réttindi sem menn geta sagt að einkaréttur hafi verið. Því fylgdu líka skyldur. Skyldurnar voru að veita öllum landsmönnum góða þjónustu. Í gegnum eign sína á Landssímanum gat ríkið ákveðið að jafna símkostnað að fullu og það var gert á ákveðnu árabili í áföngum. Menn þurftu ekkert að láta það vefjast neitt fyrir sér. Þetta var hægt vegna þess að þetta var opinbert almannaþjónustufyrirtæki. Það vill svo vel til að þannig er staðan enn í dag. Landssíminn er í eigu hins opinbera. Öðrum hluthöfum, þeim sárfáu sem eftir eru, hefur boðist það að þeirra hlutur yrði innleystur þannig að ekki er hægt að segja að illa væri komið fram við einn eða neinn þó að ríkið leggi þessu fyrirtæki sínu áfram kvaðir og skyldur á herðar. Við teljum að nýta eigi styrk Landssíma Íslands hf. og fela honum átak í þessum efnum. Þeim fjármunum væri vel varið. Það gæti líka skapað atvinnu. Það gætu verið framkvæmdir sem færu ágætlega með því sem menn eru núna að gera á öðrum sviðum eins og í vegamálum.

Herra forseti. Hér bar aðeins á góma fjarskipti á norðausturhorni landsins í orðaskiptum áðan. Því er rétt að rifja það upp, herra forseti, að ég lagði fyrirspurn fyrir hæstv. samgrh. fyrir rétt tæpu ári síðan. 20. mars 2002 svaraði samgrh. fyrirspurn frá mér um úrbætur í fjarskiptamálum á norðausturhorni landsins. Ég leyfði mér þar að spyrja hvort hæstv. ráðherra væri til í að fela Landssímanum að ráðast í þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja þarna fullnægjandi úrlausn mála. Þetta snýst fyrst og fremst um að þéttbýlisstaðirnir á Raufarhöfn og Kópaskeri sem ekki eru tengdir ljósleiðaranum í dag og búa við ónóg og óörugg og ótrygg fjarskiptasambönd fái úrbót sinna mála.

Hæstv. ráðherra --- ef ég man svörin rétt, ég er með þetta í höndunum en ætla ekki að þreyta menn á því að lesa það --- taldi sig ekki geta gefið loforð um að þetta yrði gert á því ári, á því herrans ári 2002. En nú er upp runninn annar dagur. Það er komið árið 2003 og kosningar eru meira að segja í vændum þannig að menn eru óvenjurausnarlegir á köflum þessa dagana. Nú ætla ég að gera aðra tilraun í þessari umræðu og spyrja hæstv. ráðherra: Er hann nú tilbúinn til, í ljósi þess að komið er nýtt ár, að fara fram á það við Landssímann að hann ráðist í þessar úrbætur sem snúast um hvorki meira né minna en 30--35 millj. kr., kannski 30--50 milljónir, til þess að tryggja þarna fullnægjandi úrlausn mála? Staðan er þannig í dag að hvorki Kópasker né Raufarhöfn eru tengd ljósleiðara. Raufarhöfn er þjónað með örbylgjusamböndum frá Viðarfjalli og Kópaskeri er þjónað með gömlum koparlínum frá Lundi í Öxarfirði annars vegar og örbylgjusamböndum frá Kópaskeri og yfir á Auðbjargarstaðabrekkubrún hins vegar.

Ég hygg að gagnvart Raufarhöfn eigi að heita svo að flutningsgetan sé fullnægjandi og kannski ekki fullhlaðin. En hún er ótrygg og margoft hefur borið við að t.d. fjarvinnsla og fjarfundastarfsemi þaðan hefur truflast vegna þess að um eina og ótrygga tengingu er að ræða.

[13:45]

Hvað varðar stöðuna á Kópaskeri var hún þegar ég vissi síðast þannig að þar var flutningsgetan fullhlaðin. Það er ekki hægt að verða við óskum fyrirtækja eða aðila um nýjar línur, t.d. til einhverra umtalsverða gagnaflutninga, af því að þetta gamla kerfi, þessi veiku örbylgjusambönd yfir á Tjörnes og koparlínur fram í Lund, er fullhlaðið.

Tillögur tæknimanna Landssímans um úrbætur hafa falið í sér tvær eða kannski fleiri mismunandi leiðir. Nærtækt og handhægt og myndarlegast væri auðvitað ósköp einfaldlega að leggja ljósleiðara á báða staðina, ljósleiðara frá Viðarfjalli út á Raufarhöfn og ljósleiðara frá Lundi og út á Kópasker. En einnig væri möguleg sú leið, segja tæknimenn Landssímans, og tiltölulega mjög viðráðanleg hvað kostnað snertir að leggja ljósleiðara frá Lundi í Öxarfirði út á Kópasker og jafnvel áfram upp á Snartarstaðanúp, þaðan örbylgjusamband af Snartarstaðanúpi yfir á Raufarhöfn og þá hefðu báðir staðirnir tvöfalda tengingu. Raufarhöfn hefði örbylgjusambönd úr tveimur áttum og Kópasker annars vegar ljósleiðarastreng inn á kerfið og hins vegar örbylgjusambönd yfir flóann.

Ef þetta stendur svona enn, sem mér býður í grun að það geri, að þarna hafi ekki verið ráðist í neinar úrbætur, og það þykist ég vita, og jafnvel ekki einu sinni teknar um það neinar ákvarðanir, ítreka ég spurningar mínar til hæstv. samgrh.: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að í þetta verði ráðist? Það munar ekki um einn kepp í sláturtíðinni, hefði einhvern tímann verið sagt. Þegar milljarðarnir fjúka út og suður snýst þetta ekki um meira en 30, 35, 40 millj. eða svo að koma þarna á fullnægjandi úrlausn til þessara tveggja þéttbýlisstaða og nágrennis.

Úr því að nú á að gera þarna átak í vegamálum vill maður trúa því að það sé einhver metnaður í stjórnvöldum til þess að standa við bakið á byggð og mannlífi á þessum slóðum og þá á náttúrlega ekki að vera með neitt hálfkák í þeim efnum. Það þýðir ekki að vera að leggja vegi til manna ef þeir eiga svo að dæma sig úr leik í nútímasamfélagi vegna þess að þeir hafa ekki eðlileg fjarskiptasambönd. Það á bara að gera þetta myndarlega á sem flestum sviðum og auðvitað þarf að taka til hendi gagnvart miklu fleiru þarna eins og víða annars staðar á landsbyggðinni á Íslandi.

Ég vona að hæstv. ráðherra geti flutt einhverjar gleðifréttir inn á þennan drungalega fund og glatt okkur með því að þarna standi úrbætur til.

Varðandi GSM-símann og þá stöðu vil ég bara taka undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason var hér að ræða um samtímis því sem hann minnti á þá tillögu sem liggur fyrir þinginu um úrbætur á því sviði. Ég held að veruleikinn sé einfaldlega sá að GSM-kerfið er það kerfi sem tekið hefur algerlega við sem þráðlaust fjarskiptakerfi í landinu, NMT-símarnir eru á útleið, svo ágætir sem þeir eru til síns brúks. Það er að sjálfsögðu rétt að starfrækja það kerfi á meðan það er þó mögulegt tæknilega séð, þ.e. meðan fæst til þess búnaður og annað í þeim dúr. Einhverjar fregnir hefur maður af því heyrt að það kunni að fjara undan því, einfaldlega af þeim ástæðum, eins og stundum áður hefur gerst þegar ný tækni hefur rutt annarri eldri út, að hún líður undir lok sjálfkrafa. Búnaður hættir að fást og annað í þeim dúr.

GSM-kerfið er auðvitað gríðarlega mikilvægt og þar af leiðandi er að sama skapi mikilvægt að þétta það. Þar komum við t.d. aftur að strjálbýlinu og sveitum. Það er mjög kvartað undan því, eins og ég veit að hæstv. samgrh. þekkir ekki síður en aðrir menn, að það verði með hverju árinu sem líður tilfinnanlegra ef menn eru utan GSM-þjónustu, t.d. að reyna að byggja upp ferðaþjónustu eða annað því um líkt í sveitum. Nú vilja ferðamenn einfaldlega geta notað sinn GSM-síma og þeir keyra þá í burtu þangað til þeir eru komnir inn í merki og láta ekkert bjóða sér að gista. Ef mönnum dettur í hug að setja niður fundi, ráðstefnur eða annað í þeim dúr líta þeir líka til þessara möguleika. Það eru að vísu einstöku menn svo vitrir að þeir hafa þetta öfugt og leita uppi þá örfáu staði sem eftir eru þar sem hægt er að vera í friði. (Gripið fram í: Mjög erfitt.) Mjög gott. Það er sjálfsagt að varðveita einstöku vinjar af því tagi þannig að einhvers staðar fái menn að vera ótruflaðir af þessum ósköpum.

Ég held þó að við verðum að horfa aðallega og ekki síst á hitt að frá öryggissjónarmiðum og ýmsum þjónustu-, þæginda- og rekstrarsjónarmiðum er þetta auðvitað einfaldlega bara það sama og að dæma menn úr leik. Þetta er eins og með margt annað sem bara tilheyrir því að vera fullgildur þátttakandi í nútímasamfélagi, og fólk lætur ekki bjóða sér það að vera í reynd flokkað sem annars flokks borgarar í landinu með því að því standi ekki til boða svona þjónusta. Það er ekkert óskaplegt mál að þétta þannig GSM-kerfið að það taki t.d. til meginþjóðvegakerfisins og svona að langstærstu leyti til byggðra svæða byggðakeðjuna hringinn í kringum strönd landsins. Það ræðir ekkert um það og enginn er að tala t.d. um að dekka allt hálendið, þar hefur auðvitað langdrægara kerfi NMT og talstöðva algera yfirburði og það er það sem menn sem leggja leið sína þangað verða að nota og treysta á. En gagnvart þéttbýlisstöðunum og héruðunum almennt, þjóðvegakerfinu, á að ráðast í þetta verkefni og gera það af metnaði. Eins og ég segi, það er ekki stórt miðað við margt annað sem menn hafa ráðist í.

Það hefði verið gaman, herra forseti, að ræða hérna aðeins um fjarskiptablöðruna sem sprakk, um væntingarnar um þriðju kynslóð farsíma og útboð á margra milljarða verðmætum réttindum handa þeim fyrirtækjum. Það er hljótt um slíkt tal í dag. Og þeir sem þöndu sig mest um þá svívirðu að fara ætti að úthluta þessu á faglegum forsendum eða á grundvelli einhvers konar vals en ekki bjóða það upp eru þögulir í dag, sem og leiðarahöfundar ónefndra blaða sem skömmuðu mann og annan fyrir að sjá það ekki í hendi sér að það ætti að bjóða þetta allt saman upp. En við tökum kannski þá umræðu einhvern tíma seinna.