Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 13:54:34 (3839)

2003-02-13 13:54:34# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. menntmrh. um það að þetta eru ... (Samgrh.: Samgönguráðherra.) ... hæstv. samgrh., en hæstv. ráðherra var eiginlega farinn að tala hér undir lokin aðallega sem menntmrh., sem er líka ágætt, um símenntunarmiðstöðvar og mikilvægi þessarar tækni einmitt í sambandi við fjarnám og fræðslumöguleika, ekki síst úti í hinum dreifðari byggðum. Það er einn angi þessa máls sem gerir það að verkum að það er gríðarlega mikilvægt að þessar undirstöður verði til staðar.

Auðvitað gef ég mér í gegnum hin óbeinu svör hæstv. ráðherra að staðið verði af metnaði við þessi áform um tveggja megabæta háhraðatengingar úti um allt land og þá til þess líka að innleiða möguleika á stafrænu sjónvarpi, sem er sömuleiðis mikið framfaramál, og þá fái staðir af því tagi sem hér hefur borið sérstaklega á góma úrlausn. Ég vona bara að það gerist þá fyrr en síðar þannig að ekki þurfi að láta það mæta einhverjum afgangi. Þetta eru ekki stórar tölur og auðvitað löngu tímabært hvort sem er að bæta t.d. hlustunarskilyrði bæði útvarps og sjónvarps á þessum svæðum. Þarna á í hlut, a.m.k. í öðru tilvikinu, þ.e. Kópasker, svæði sem hefur lengi búið við aðstæður að því leyti sem eru algerlega til háborinnar skammar. Það er meira að segja svo langt gengið í því að ég hef grun um að sjálft Ríkisútvarpið hafi jafnvel heykst á því að fara í hart við að innheimta afnotagjöld hjá mönnum sem hafa reist ágreining um það að þeir væru látnir borga afnotagjöld af sjónvarpi sem þeir sæju bara alls ekki nema bara einhverjar gráar flygsur. Þannig hefur ástandið verið þarna. Það er af nógu að taka ef menn ætla að ráðast í þær úrbætur sem þarf á sviði fjarskiptamála til þess að menn geti verið þátttakendur í því öllu saman og líka hvað varðar hlustunar- og áhorfsskilyrði útvarps og sjónvarps.