Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 13:57:04 (3840)

2003-02-13 13:57:04# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Frv. þetta hefur það að markmiði að efla stofnunina og færa löggjöf að nýjum skuldbindingum Íslands vegna aðildar okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Langt fram eftir 20. öldinni má segja að í fjarskipta- og póstmálum hafi mörk stjórnsýslu og rekstrar verið um margt óljós. Árið 1997 varð þar hins vegar talsverð breyting á. Annars vegar var stofnað hlutafélag um rekstur Póst- og símamálstofnunar, en hins vegar var komið á fót opinberri stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, á grundvelli sérstakra laga frá Alþingi.

Póst- og fjarskiptastofnun var frá öndverðu falið almennt stjórnsýsluhlutverk á sviði fjarskipta og póstþjónustu og sér í lagi eftirlit með framkvæmd þágildandi laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu. Þannig var í fyrsta sinn gerður skýr greinarmunur á meðferð opinbers valds og rekstrar á þessum sviðum.

Við undirbúning lagasetningar um Póst- og fjarskiptastofnun árið 1996 þurfti að marka verksvið stofnunarinnar, gera grein fyrir verkefnum hennar og setja starfsreglur um ýmis mál sem ekki hafði reynt á áður hér á landi. Við það starf var höfð hliðsjón af þágildandi tilskipunum Evrópska efnahagssvæðisins en frekari breytinga var senn að vænta, einkum á fjarskiptasviðinu. Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi nýjar fjarskiptatilskipanir á Evrópska efnahagssvæðinu sem afnámu heimild aðildarríkja til þess að mæla fyrir um einkarétt á fjarskiptaþjónustu.

Í gildandi lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, sem samþykkt voru á Alþingi í lok desember 1999, er leitast við að efla samkeppnishlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar. Einn þáttur þess var að mælt var fyrir um samstarf við Samkeppnisstofnun um samskipti stofnana og afgreiðslu mála. Reglur þar að lútandi hafa verið settar. Jafnframt fékk Póst- og fjarskiptastofnun með lögunum heimild til þess að taka bráðabirgðaákvörðun í einstökum deilumálum.

Það leið ekki á löngu áður en reyna fór á hina nýju stofnun því í kjölfar afnáms einkaréttar á fjarskiptaþjónustu varð mikil gróska á fjarskiptamarkaðnum hér á landi eins og annars staðar þar sem atvinnufrelsi hefur verið aukið. Á undanförnum missirum hefur hins vegar nokkuð dregið úr nýfjárfestingum þrátt fyrir að fjarskiptamarkaðurinn fari enn víðast hvar stækkandi. Nú er reyndar svo komið að meiri tilhneiging virðist vera til samruna fjarskiptafyrirtækja en stofnunar nýrra slíkra fyrirtækja.

[14:00]

Þróun lagasetningar hér á landi hefur hin síðari ár staðið í nánum tengslum við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Lögin sem sett voru í lok ársins 1996 um Póst- og fjarskiptastofnun og fjarskiptalög tóku þannig um margt mið af fyrstu tilskipunum Evrópska efnahagssvæðisins. Í fyrstu mæltu þær fyrir um aðskilnað stjórnsýslu og rekstrar og einkaleyfisstarfsemi og samkeppnisrekstrar en þegar líða tók á 10. áratuginn var stórt skref stigið í afnámi ríkiseinokunar á fjarskiptastarfsemi.

Með lögum nr. 110/1999, um Póst- og fjarskiptastofnun, og lögum nr. 107/1999, um fjarskipti, varð mikil breyting á lagaumhverfinu sem hafði ótvíræð þjóðfélagsleg áhrif. Á síðustu árum hefur heildarendurskoðun fjarskiptalöggjafar Evrópska efnahagssvæðisins staðið yfir. Sú heildarendurskoðun hefur leitt til löggjafar sem taka mun gildi 25. júlí nk. Þess vegna er afar mikilvægt að ljúka afgreiðslu þessa frv. á yfirstandandi þingi.

Ný rammatilskipun Evrópusambandsins um fjarskiptamál inniheldur fjölmörg ákvæði sem lúta að starfsemi fjarskiptastofnana. Auk rammatilskipunarinnar er í allri þessari löggjöf að finna tilvísun í verkefni sem fjarskiptastofnunum eru falin. Eitt megineinkenni hinna nýju tilskipana er að minni greinarmunur er gerður á fjarskiptarekstri og almennri atvinnustarfsemi en áður hefur verið. Meginreglan verður því að sömu sjónarmið munu gilda um rekstur fjarskiptanets og gilda um almenna atvinnustarfsemi nema sýnt sé fram á að verulega skorti á samkeppni. Af þessu leiðir að mikla áherslu verður að leggja á að skilgreina markaði fyrir fjarskiptanet og þjónustu.

Í nýju löggjöfinni er skilgreining á umtalsverðri markaðshlutdeild breytt nokkuð. Í stað þess að miða við 25% markaðshlutdeild verða notaðar aðferðir samkeppnisréttar við skilgreiningu á markaðsráðandi stöðu. Þetta hefur í för með sér ný verkefni fyrir Póst- og fjarskiptastofnun. Niðurstaðan getur leitt til breytinga á stöðu fyrirtækja og kvöðum sem lagðar eru á þau eins og að framan er vikið.

Af hinni nýju EES-löggjöf leiðir að auka þarf samráð við eftirlitsstofnanir annarra aðildarríkja. Þannig mun Póst- og fjarskiptastofnun þurfa að leggja drög ákvarðana sinna í málum sem hafa áhrif í öðrum löndum undir systurstofnanir sínar með milligöngu Eftirlitsstofnunar EFTA. Hins vegar mun löggjöf EES-samningsins gera þetta óhjákvæmilegt.

Fyrir utan aukið samráð við aðrar fjarskiptastofnanir innan EES eru gerðar kröfur til þess að Póst- og fjarskiptastofnun hafi meira samráð við hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar sem hafa umtalsverð áhrif á viðkomandi markað og gefi aðilum kost á að gefa umsögn um fyrirhugaðar ákvarðanir. Á hinn bóginn er kveðið á um aukna möguleika notenda til þess að fá skorið úr kvörtunum yfir þjónustu og er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað stærra hlutverk en áður í því sambandi.

Hér hefur verið vikið að þeim þætti í starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar sem lýtur að fjarskiptum, en stofnunin hefur einnig mikilvægu hlutverki að gegna á sviði póstþjónustu. Breytingar á póstþjónustu eru ekki eins stórfelldar og á fjarskiptasviðinu en breytinga er senn að vænta. Ný tilskipun Evrópska efnahagssvæðisins um aukið frelsi í póstþjónustu kveður á um að einkaréttur ríkisins fyrir bréf megi í framtíðinni ekki taka til sendinga sem eru yfir 100 g að þyngd en miðað hefur verið við að aðildarríkjum Evópska efnahagssvæðisins sé heimilt að kveða á um einkarétt á bréfasendingum undir 350 g að þyngd. Einkaréttur Íslandspósts hf. mun því einungis miðast við bréfasendingar undir 100 g að þyngd í stað gildandi 250 g eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Þessar breytingar munu eflaust hafa talsverðar breytingar í för með sér hér á landi.

Breytingar á löggjöf fjarskipta- og póstmála sem hér hafa verið raktar hafa í för með sér að nauðsynlegt er að breyta á ný lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Helstu nýmæli og breytingar eru eftirfarandi:

1. Verkefnalisti Póst- og fjarskiptastofnunar hefur verið endurskoðaður, m.a. með hliðsjón af samruna fjarskipta- og upplýsingatækni.

2. Nánar er kveðið á en áður um upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda gagnvart Póst- og fjarskiptastofnun. --- Og þar er einmitt komið inn á það sem fram kom í ræðum manna fyrr í dag sem snýr að því að upplýsa neytendur, ekki síst á sviði gjaldskrármála, en hv. þm. Jón Bjarnason nefndi það alveg sérstaklega að gjaldskráin væri orðin mikill frumskógur. Þetta frv. skapar Fjarskiptastofnun einmitt enn betri skilyrði til þess að beita sér í þágu neytenda þannig að við erum að gera hér afar mikilvægar breytingar. Ég vænti þess að hv. þingmaður leggist á árar með okkur og styðji okkur í því að koma þessu fram, og efast raunar ekki um að svo verði.

3. Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun veiti hagsmunaaðilum rétt til umsagnar áður en teknar eru ákvarðanir sem munu hafa veruleg áhrif á fjarskiptamarkaðinn. --- Þetta er með sama hætti nýmæli sem hefur mikla þýðingu og allt snýst þetta um að tryggja hagsmuni neytenda og einnig að tryggja hagsmuni fjarskiptafyrirtækjanna með öflugu samráði.

4. Ef Póst- og fjarskiptastofnun hyggst taka ákvörðun sem getur haft áhrif á viðskipti milli ríkja EES verður stofnuninni gert að skyldu að hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA og eftirlitsstofnanir í öðrum ríkjum EES eins og fram kom fyrr í ræðu minni.

5. Í stað einnar greinar í gildandi lögum um kvartanir til stofnunarinnar koma tvær ítarlegri greinar. Önnur fjallar um deilumál fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda og hin fjallar um kvartanir neytenda.

6. Lagt er til að breyta ákveðnum lögbundnum gjöldum sem fjarskiptafyrirtækjum er gert að greiða til Póst- og fjarskiptastofnunar. Helsta breytingin er að ákveðið er gjald fyrir úthlutuð númer og á móti kemur lækkun á veltutengdu rekstrargjaldi. --- Í dag eru gjöldin sem fyrirtækin greiða eingöngu veltutengd, en talið er eðlilegra að hafa þetta með þeim hætti að tengja það annars vegar úthlutun númera og hins vegar veltu fyrirtækjanna.

Á undanförnum árum hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitt sér fyrir því að stofnuð verði sérstök evrópsk fjarskiptastofnun sem hefði það hlutverk að samræma reglur og framkvæmd eftirlits í ríkjum sambandsins. Slíkar stofnanir hafa tekið til starfa á nokkrum öðrum sviðum svo sem í siglingamálum og flugöryggismálum og eru að mati okkar sem fjöllum um samgöngumálin í samgrn. afar mikilvægar stofnanir. Framkvæmdastjórninni hefur ekki orðið ágengt í þessu efni, a.m.k. ekki enn sem komið er vegna andstöðu aðildarríkja sambandsins. Hins vegar er hugsanlegt að þegar tímar líða fram muni samræming stjórnsýslunnar jafnvel aukast enn meira en nú er.

Þrátt fyrir að aukinn samruni evrópskrar stjórnsýslu á sviði fjarskipta og póstmála kunni að orka tvímælis frá sjónarhóli okkar Íslendinga er óhætt að fullyrða að fjarskiptalög síðustu ára hafi verið farsæl.

Undanfarna mánuði hefur stefnumörkun Póst- og fjarskiptastofnunar verið endurskoðuð með það að markmiði að efla stofnunina og skýra verkefni hennar í samræmi við þróun löggjafar og breytingar á markaðnum. Í framtíðarsýn stofnunarinnar er lögð áhersla á öfluga samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur þar sem tryggt verði lágt verð, gæði, úrval þjónustu og auðvelt aðgengi hennar. Helstu áhersluatriði þessarar nýju stefnumörkunar eru:

að efla vitund almennings um þjónustu fjarskiptafyrirtækja og skapa þannig aðhald og samkeppni,

að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði með upplýsingamiðlun, markaðsgreiningu og réttri verðlagningu grunnþjónustu markaðsráðandi fyrirtækja,

gagnsæjar og skýrar reglur sem auðvelda aðgengi og starf innlendra og erlendra aðila á fjarskiptamarkaði á Íslandi,

framþróun upplýsingasamfélagsins með samhæfingu krafta opinberra og einkaaðila er starfa að þróun upplýsingasamfélagsins og samruni í fjarskiptatækni og upplýsingatækni.

Með lagafrv. þessu er enn haldið á þeirri sömu braut að efla póst- og fjarskiptamarkaði hér á landi, og frv. miðar allt að því.

Ég vil að lokum geta þess að frv. var sent út til umsagnar og hefur verið unnið í samráði og samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila og hlutaðeigandi ríkisstofnanir.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. að lokinni þessari umræðu.