Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 14:33:36 (3844)

2003-02-13 14:33:36# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um Póst- og fjarskiptastofnun er samhliða því lagafrv. sem við fjölluðum um áðan, um fjarskipti. Póst- og fjarskiptastofnun hefur veigamiklu hlutverki að gegna í að fylgjast með, hafa eftirlit með þessari þjónustu og setja um hana reglur.

Ég vil í upphafi máls míns taka fram að ef allt er með felldu hef ég ekki áhyggjur af markaðsráðandi stöðu Landssímans. Meðan hann er í eigu þjóðarinnar og lýtur boðvaldi Alþingis í gegnum ráðherra sem fer með mál hans hef ég ekki áhyggjur af því þó að Landssíminn hafi yfirburðastöðu. Ég tel það reyndar kost, þá er hægt að gera kröfur til Landssímans um þjónustu, og gera þær kröfur fyrir hönd þjóðarinnar. Ég er því ekki sammála hv. þm. Kristjáni L. Möller sem hafði áhyggjur af markaðsráðandi stöðu Landssímans og taldi að hún gæti orðið framþróun fjarskipta til trafala. Ég tel einmitt að við eigum að nýta okkur styrk Landssímans til þess að efla og styrkja fjarskiptakerfið um allt land. Við eigum að beita valdi okkar sem eignaraðila á Landssímanum til þess að svo megi verða á sem bestan hátt. Við eigum að gæta hófs í arðsemiskröfu til Landssímans sem fyrirtækis en krefjast þess að hann leggi krafta sína alla fram í að byggja upp og styrkja þjónustuna.

Ég hef því ekki áhyggjur af því, herra forseti. Ég hefði meiri áhyggjur af því ef staða Landssímans veiktist og við yrðum einkavæddri fákeppni að bráð í þeim þjónustuflokki sem varðar fjarskiptin.

Ef eitthvað er sérstaklega að óttast í framtíðinni á næstu árum er það einkavæðingarkrafan og krafan um hámarksarðsemi á fjarskiptamarkaði gagnvart Landssíma Íslands. Ef hún nær auknum tökum á þeirri þjónustu er vá fyrir dyrum. Við þurfum ekkert að vera svo skyni skroppin að halda að á Íslandi sé hægt að reka einhvern fjölda fjarskiptafyrirtækja sem geti sinnt góðri þjónustu um allt land. Í þessu dreifbýla og fámenna landi er útilokað að ætla sér að hér geti ríkt einhver samkeppni sem tryggi þjónustu um allt land með líkum hætti og t.d. í þéttbýlustu löndum Mið-Evrópu.

Þess vegna vil ég taka fram í upphafi að ég tel að hagsmunir fjarskiptamála, hagsmunir þjóðarinnar, séu fólgnir í því að Landssíminn haldist helst í 100% eigu þjóðarinnar og lúti boðvaldi hennar hvað varðar uppbyggingu og eflingu þjónustunnar. Það tel ég að sé alveg númer eitt. Fari það á hinn veginn að þetta verði alfarið á torgi markaðarins í okkar dreifbýla landi óttast ég að við lendum í einkavæddri fákeppni og þeim vandamálum sem henni fylgja, svipað og við ræddum hér fyrr í morgun þar sem við ræddum um flutningana, landflutningana, sem eru núna að langmestu komnir í hendur tveggja aðila og orðin er einkavædd fákeppni á því sviði.

Ég vil taka þetta fram hér í upphafi til þess að árétta það að ég óttast ekki að vandinn sé sá að Landssími Íslands sé sterkur á þessum vettvangi. Frekar er í því fólginn styrkur okkar í fjarskiptum.

Þau frv. sem við erum að fjalla um fjalla um Póst- og fjarskiptastofnun og þau verkefni sem henni eru falin. Henni er falið að annast framkvæmd laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu og hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Þetta er ærið verkefni að annast. Í 3. gr. eru rakin frekari atriði sem ætlunin er að Póst- og fjarskiptastofnun hafi eftirlit með. Þar segir m.a. í 2. lið, með leyfi virðulegs forseta:

,,Að stuðla að samkeppni á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti ...``

Þetta er svo sem mjög mikilvægt. Ég hefði þó viljað setja framar í þennan texta að Póst- og fjarskiptastofnun ætti að fylgjast með því að þeirri þjónustu sem ákveðin væri yrði fylgt. Þjónustan, þjónustukvaðirnar og þjónustuskyldurnar væru settar númer eitt í því eftirlitshlutverki sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur.

Í frv. er einnig kveðið á um að Póst- og fjarskiptastofnun skuli gæta hagsmuna almennings með því að vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu. Já, alþjónusta er sú þjónusta sem við viljum að allir landsmenn hafi aðgang að. Við töluðum áðan um mikilvægi þessi að breiðbandsþjónustan yrði alþjónusta. Ég talaði einnig áðan um mikilvægi þess að GSM-símakerfið yrði hluti af alþjónustunni. Við höfum talað um að ISDN- og ADSL-tengingarnar yrðu hluti af alþjónustunni. Þetta er mjög mikilvægt, en þarna er einungis kveðið á um að hafa skuli eftirlit en til þess að eftirlitið geti verið virkt þarf að vera tímasett áætlun um hvenær við ætlum að ná markmiðum eða áföngum í uppbyggingu þessa kerfis. Þá tímasettu áætlun vantar. Þá tímasettu áætlun í uppbyggingu á slíku þjónustukerfi vantar til þess að hægt sé að fylgja því eftir að unnið sé samkvæmt þeirri áætlun.

Ég legg áherslu á að þau markmið varðandi uppbyggingu og eflingu þessarar þjónustu ætti að vera fyrir hendi.

Þá vil ég og vekja athygli á því að Póst- og fjarskiptastofnun ætlaði að fylgjast með gæðum þjónustunnar og öryggi hennar. Mér er ekki kunnugt um að þarna liggi heldur fyrir neinar reglur. Liggja t.d. fyrir reglur um það hvernig skuli háttað viðbragðs- og viðgerðarþjónustu um land allt? Liggja fyrir einhverjar reglur um það hve langt skuli vera að sækja varahluti í hin almennu fjarskipti eða tæki og búnað sem lúta að fjarskiptum í grunnnetinu eða í alþjónustunni? Kannski þarf að keyra mörg hundruð kílómetra til að nálgast símasnúru, eins og er í sumum landshlutum eftir að þjónusta Pósts og síma sem var sameiginleg víða um land rak þar öfluga og góða viðhalds- og viðgerðaþjónustu.

Mér finnst að þjónustustigin ættu að vera skilgreind í viðhalds-, viðbragðs- og viðgerðarþjónustu. Ég spyr eftir því: Er hún fyrir hendi? Eða er ætlunin að setja upp slíka gæðastaðla á þjónustunni?

Við höfum rætt allmikið og oft um póstþjónustuna og hvernig hún er stöðugt að verða einkavædd. Æ stærri bitar eru teknir út úr hinni almennu póstþjónustu og boðnir út eða þjónustunni hleypt út á einkamarkað, einkum arðbærustu þáttunum. Nú síðast um daginn, og ráðherra vék að því í ræðu sinni, urðu þær breytingar á lögunum um póstþjónustu að lækka þyngd þeirra bréfa og póstsendinga sem lytu alþjónustukröfum.

En hæstv. ráðherra hefði jafnframt getað greint okkur frá hvað liði störfum nefndar og hvað liði úrbótum eða ákvörðunum af hálfu samgrn. varðandi kostnað við dreifingu á blöðum og tímaritum um landið. Eftir að lögum um póstþjónustu var breytt á þann veg að hin almenna póstþjónusta sæti eftir með óarðbærustu hlutina í póstþjónustunni og gat ekki fært á milli einstakra sendinga, það var farið að skilgreina á milli þyngdar í sendingum o.s.frv., að hver þáttur átti að fara að bera sig sérstaklega, þá hefur það lent mjög harkalega á blöðum og tímaritum. Mig minnir að í umræðu hér á Alþingi fyrir skömmu hafi ráðherra einmitt greint frá því að vænta væri tillagna um það hvernig skyldi jafna eða bæta útgefendum blaða og og tímarita þá miklu hækkun sem Íslandspóstur nú krefðist fyrir að bera út þessi blöð og tímarit.

[14:45]

Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi komið fram. Mér er hins vegar kunnugt um að eigendur og útgefendur þessara blaða eru afar áhyggjufullir og æ fleiri færast nær þeim barmi að hætta þessari útgáfu, hætta þessari dreifingu vegna þess að póstburðargjöldin á þeim eru svo há að það er útilokað að sá rekstur geti gengið. Ég veit um dagblaðið Feyki, ritstjóri Feykis á Sauðárkróki var einmitt að tala við mig í gær og sagði að þetta skipti hann hundruðum þúsunda króna og réði því hvort hann gæfi blaðið út eða ekki. Ég spyr hæstv. ráðherra hér: Hvað líður tillögum sem hæstv. ráðherra hefur boðað á Alþingi að yrðu kynntar, og það fyrir nokkru síðan, hvað varðaði jöfnun á póstburðargjöldum?

Herra forseti. Það er gott og gilt að setja hér í lög að Póst- og fjarskiptastofnun skuli gæta hagsmuna landsmanna hvað varðar hina ýmsu póst- og fjarskiptaþjónustu. En þá er líka mjög mikilvægt að það liggi klárt fyrir af hálfu stjórnvalda hvert þjónustustigið skuli vera sem Póst- og fjarskiptastofnun á að sjá til að fylgt sé. Og þar skortir mikið á. Þar fara menn enn þá undan í flæmingi við að skilgreina þjónustustigið gagnvart neytendum vítt og breitt um landið, en það er það sem skiptir máli. Orð eru svo sem til alls fyrst en það eru ekki þau sem ráða hér, hér er það framkvæmdin í verki og kröfurnar, hreinar og klárar, á borðið.

Þetta vil ég hér draga fram, herra forseti. Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar verða meira eða minna út í loftið ef ekki liggja fyrir nákvæmar skilgreiningar á því hverju hún á að fylgjast með og hvers Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist. Mér vitanlega eru ekki enn komnir gæðastuðlar varðandi fjarskiptaþjónustu. Og ég auglýsi eftir gæðastuðlum hvað varðar síma- og fjarskiptaþjónustu og póstþjónustu eins og ég hef hér rakið.

Ég fagna því, herra forseti, að hæstv. ráðherra tók undir með mér frá því í ræðu fyrr í dag þar sem ég lagði áherslu á að gjaldskrár yrðu að vera sýnilegar, yrðu að vera klárar og opnar og öllum aðgengilegar, einfaldar. Og þá ekki aðeins hinar almennu gjaldskrár sem snúa að hinum almenna neytanda heldur líka þær gjaldskrár sem fyrirtæki bjóða á markaði sem eru tengdar magni eða öðru slíku. Það á allt að koma upp á borðið, það á allt að vera sýnilegt, líka samningar á milli aðila um þessa þjónustu.

Það þótti ástæða til af hálfu Samkeppnisstofnunar að snerpa á reglum á milli smásala og birgja. Ég spyr: Hvernig er háttað hér reglum um samninga um gjaldskrár og samskipti, þjónustuskipti, á milli fjarskiptafyrirtækja og neytenda og neytendahópa? Er ekki ástæða til þess að þar séu líka settar reglur og sett skilyrði um að þau mál séu opinber og gagnsæ? Öll leynd, allur feluleikur, er allri heilbrigðri samkeppni til trafala og leiðir af sér undirheimsrekstur og undirheimsverð.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er á döfinni að settar verði snarpari reglur sem lúta að því að gjaldtökusamningar milli fjarskiptafyrirtækja og neytendahópa verði gerðir gagnsæir þannig að hægt verði að fylgjast með þeim? Annars er hættan sú að hinn almenni neytandi verði látinn borga niður þjónustuna við stórneytendurna. Við rekum okkur á það á svo mörgum sviðum, hvort sem er í raforku, vöruinnflutningi eða flutningum, og mér kæmi ekki á óvart þó að sú staða væri einnig í fjarskiptum. Og það getur ekki verið tilgangur samkeppninnar, að efla og styrkja samkeppni, ef hún á að fara fram í krafti leyndar og samninga sem fram fara undir borðum en almenningur síðan látinn bera kostnað af því sem út af ber.

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að hæstv. samgrh. tók undir það að afla upplýsinga um þessar gjaldskrár hjá hinum ýmsu símafyrirtækjum, hjá fjarskiptafyrirtækjum, sem gætu komið inn í þessa umræðu þannig að hægt yrði að beita sér fyrir því eins og kostur væri að reglur um gjaldskrár yrðu einfaldaðar og þær gerðar sem sýnilegastar.

Virðulegi forseti. Þetta mál kemur síðan til hv. samgn. þar sem ég á sæti og þar gefst tækifæri til að fjalla ítarlegar um það. En ég legg áherslu á það að fjarskipti eru grunnalmannaþjónusta okkar Íslendinga, tengir okkur saman sem þjóð og við eigum það undir þeim að jöfnuður verði á milli þjóðfélagsþegna óháð búsetu, samkeppnishæfni atvinnulífs verði jöfn og sterk hvar sem er á landinu.

En einnig er í gegnum þessa þætti hægt að beita mismunun. Gegn henni þarf að verjast. Ég held, virðulegi forseti, að lykillinn að þessu sé m.a. að við höldum helst 100% eign okkar í Landssímanum og beitum styrk hans til þess að efla fjarskiptaþjónustuna, standa vörð um þjónustugæðin og beita eignarhaldi okkar, þjóðarinnar allrar, í gegnum hlutabréfið til þess að svo megi verða.