Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 14:58:33 (3847)

2003-02-13 14:58:33# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Uppbygging fjarskiptakerfisins er á vegum fjarskiptafyrirtækjanna og rétt að undirstrika það. Það eru ekki áform um að setja neina sérstaka fjármuni inn í það enda mundi það þá verða að gerast með einhverjum skilgreindum hætti sem ekkert liggur fyrir um. Það eru engin áform um að leggja fjármuni til uppbyggingar í samgöngukerfinu umfram það sem fyrirtækin eru að gera, fyrir utan það sem kom hér fram fyrr þar sem um er að ræða svokallað FS-net þar sem ríkissjóður hefur boðið út tiltekna þjónustu og greiðir fyrir hana. Hún er afar mikilvæg og mun skapa mennta-, rannsókna- og ríkisstofnunum hvers konar algerlega nýja aðstöðu með 100 megabæta flutningsgetu um allt land. Það skiptir mjög miklu máli.

[15:00]

Við erum á mjög góðu róli í þessu og í raun í miklu betri stöðu en við t.d. uppbyggingu vegakerfis. Þess vegna leggjum við svo mikla áherslu á uppbyggingu vegakerfisins með ríkisframlögum, og með útboðum eins og á FS-netuppbyggingunni. Þannig er leyst úr þeim málum á vegum þeirra aðila sem þar að koma. Ég sé því enga sérstaka ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessu eins og sakir standa.