Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:00:29 (3848)

2003-02-13 15:00:29# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hvert átak sem ráðist er í er fagnaðarefni. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, að það er afar mikilvægt að tengja skóla og menntastofnanir öflugu fjarskiptakerfi, bæði innbyrðis og þannig að þeir hafi aðgang að þeim möguleikum sem öflugt fjarskiptakerfi býður upp á. Það er mjög mikilvægt.

Engu að síður erum við líka að tala um afar mikilvæga þætti til þess að styrkja og efla atvinnulíf og búsetu um allt land í gegnum fjarskiptakerfið. Við höfum hér t.d. talað um breiðbandsvæðingu Norðausturlands sem þarf ekki mikla fjárveitingu til. Við höfum talað um GSM-símakerfið sem skiptir líka miklu máli fyrir samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu. Ég tel að bara í þessum tveim þáttum mætti taka virkilega á við að efla og styrkja atvinnulíf og byggð um allt land ef til þess væri veitt aukið fé og aukið fjármagn, þ.e. átak á ákveðnum stöðum, ákveðnum svæðum. Ég skora á hæstv. ráðherra og Alþingi að í meðförum þessa máls sem núna liggur fyrir um aukið fjármagn til samgöngumála verði einnig skoðað hvort auka megi fjárveitingar til ákveðinna átaksverkefna í fjarskiptamálum.