Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:21:21 (3850)

2003-02-13 15:21:21# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um tryggan lágmarkslífeyri. Flm. ásamt mér er hv. þm. Sverrir Hermannsson.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að bæta skuli þjóðfélagsstöðu lífeyrisþega sem fá minni lífeyri greiddan úr lífeyrissjóði sínum en 40 þús. kr. á mánuði með því að breyta bótareglum almannatrygginga þannig að lífeyrisgreiðslur undir 40 þús. kr. á mánuði skerði ekki grunnlífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót eða aðrar bætur lífeyrisþegans. Fyrir hverjar 10 þús. kr. sem lífeyrir er umfram 40 þús. kr. verði skerðing 1/4 þess sem nú er, minnki sem sagt niður í 3/4, og fyrir hverjar 10 þús. kr. sem lífeyrir er umfram 50 þús. kr. verði skerðing 1/2 þess sem nú er og fyrir hverjar 10 þús. kr. umfram 60 þús. kr. 3/4 þess sem nú er.

Herra forseti. Þessari tillögu fylgir svofelld greinargerð:

Tillaga þessi er flutt til þess að fá fram hver vilji meiri hluta Alþingis er gagnvart þeim lífeyrisþegum sem búa við lökust lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum. Hér er í flestum tilfellum um að ræða fólk sem á starfsævi sinni hafði frekar lág laun eða naut ekki greiðslu af launum sínum í lífeyrissjóð að hluta eða öllu leyti fyrr en of seint miðað við aldur til þess að öðlast lífeyri sem dugar til framfærslu á efri árum.

Vitað er að lífeyrisgreiðslur eru enn of lágar til þess að geta verið meginstoð lífeyrisþega. Sú aðferð sem hér er lögð til leiðir til þess að greiðsla úr lífeyrissjóði undir 40 þús. kr. á mánuði skerðir engar bætur sem lífeyrisþeginn fær út úr almannatryggingum. Útfærslan virkar einnig þannig að eftir því sem fleiri landsmenn fá hærri lífeyri en 40 þús. kr. á mánuði, en þeim fjölgar vonandi hratt á næstu árum, fækkar þeim sem njóta þessarar reglu að öllu leyti, sem leiðir til þess smám saman að kostnaður ríkissjóðs minnkar. Rétt er að vekja athygli á því að eins og reglan er útfærð minnkar hún svokölluð jaðarskattaáhrif. Verði tillagan samþykkt og framkvæmd eftir efni sínu verður hagur lífeyrisþega með lágan lífeyri mun tryggari en nú er.

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að segja frá því að á sl. hausti gerði ríkisstjórnin samkomulag við Landssamband eldri borgara um það m.a. að ganga í nokkra átt að því efni sem hér er lagt til en þó ekki nándar nærri eins og tillagan gerir ráð fyrir. Það var hins vegar gert þannig að skerðingin, sem var 67%, var með samkomulagi við Landssamband eldri borgara lækkuð niður í 45%. Var það samþykkt hér á hv. Alþingi og er það vissulega til bóta. Sú tillaga er efnislega sú sama og ég er að kynna hér nema tillaga mín gengur einfaldlega mun lengra og hefði í raun tryggt það að rauntekjur þeirra, sem eiga þetta lágan lífeyri eins og hér er notað sem viðmiðun og eru jafnframt á bótum almannatrygginga, eftir skatta hefðu hækkað um á bilinu 12--15 þús. kr. Þetta hefði jú þýtt það að jaðarskattaáhrifin á bæturnar hefðu horfið, a.m.k. af 40 þús. kr., og síðan minnkað af hverjum 10 þús. kr. þar á eftir uns 70 þús. kr. var náð, og þá hefði skerðingin sem sagt verið sú sama og nú hefur verið samið um. Að öðru leyti hefði staða lífeyrisþeganna batnað sem þessu nemur. Eftir sem áður hefðu auðvitað lífeyrisþegar eins og aðrir greitt tekjuskatta og útsvar af þeim tekjum sem væru umfram skattleysismörk en ekki verið nánast tvískattaðir eins og nú er, þ.e. að fyrst eyðir lífeyrisrétturinn bótaréttinum og síðan er skattlagt það sem umfram skattleysismörk er.

Við flm., herra forseti, teljum að þessi útfærsla hefði verið þeim sem lökust eiga réttindi í lífeyrissjóði til mikilla bóta. Þó að það sé sagt hér í greinargerð að á næstu árum muni lífeyrisréttindi fólks almennt lagast miðað við það sem nú er verður samt að geta þess, herra forseti, að á undanförnum árum hefur ávöxtun margra lífeyrissjóðanna ekki verið sem skyldi. Eignastaðan í lífeyrissjóðunum, sem menn reiknuðu með að héldi áfram að vaxa, hefur kannski ekkert vaxið í sumum lífeyrissjóðunum undanfarin þrjú ár. Þvert á móti hefur ávöxtunin verið neikvæð.

Það kann því að vera lengra í það, herra forseti, heldur en almennt hefur verið gert ráð fyrir í umræðum, m.a. hér á Alþingi, að innan 15--20 ára, sumir hafa jafnvel nefnt 10 ár, yrði megintekjustoð allra lífeyrisþega orðin úr lífeyrissjóðum en ekki frá almannatryggingabótum. Ég hygg að þetta sé of mikil bjartsýni miðað við það hvernig málin hafa þróast. Eftir sem áður er alveg ljóst að það verður alltaf einhver hópur í þjóðfélagi okkar sem mun eignast mjög lítinn lífeyri, annars vegar vegna þess að það er til fólk, því miður, sem starfar á mjög lágum launum og greiðir af þeim ekki háar upphæðir í lífeyrissjóð og eignast þar af leiðandi lítil lífeyrisréttindi, þar sem réttindin eru tengd inngreiðslum sem hlutfalli af tekjum. Í annan stað er auðvitað enging trygging fyrir því til framtíðar litið, eins og dæmin sanna núna um ávöxtun lífeyrissjóðanna, að lífeyrissjóðirnir verndi rétt þeirra peninga sem lagðir hafa verið inn og ávaxti hann með þeim hætti sem menn hafa gert sér vonir um.

Þess vegna er, herra forseti, orðið meira en tímabært að líta til þess hvernig lífeyrisréttindi eru almennt skattlögð. Með því að fara þá leið sem hér er lögð til hefðu menn verið að samþykkja að þeir sem áttu minnstan lífeyri í lífeyrissjóðum og höfðu meginlifibrauð sitt af almannatryggingum nytu þess og yrðu minnst skertir, við værum í raun og veru með þessari útfærslu að hækka rauntekjur bótaþeganna um 12--15 þús. kr., eins og ég nefndi, og það er ekki vanþörf á, herra forseti, þegar rætt er um aldraða og öryrkja sem eru þeir sem mest njóta í bótum almannatrygginga og þurfa mest á því að halda.

Hluti af hugsuninni í þessari tillögu er sem sagt, eins og ég gat um áður, að með samningum við Landssamband eldri borgara var farið inn í pakka sem var samið um milli ríkisstjórnarinnar og landssamtakanna á sl. ári, og vissulega er það vel. En við teljum að fara hefði mátt þá leið sem við leggjum hérna til.

[15:30]

Síðan er það annar handleggur, herra forseti, sem vel má ræða undir þessari tillögu að skattlagning lífeyrisgreiðslna yfir höfuð mál er sem þarf að skoða. Það er auðvitað svo þegar menn leggja fé sitt inn í lífeyrissjóð og ávaxta það þar í áratugi endar það með því að ef menn eiga peningasafnið inni í 40 ár, þ.e. frá því menn byrjuðu að greiða í lífeyrissjóð og fara síðan að taka út lífeyri á elliárunum, þá er meginútgreiðslan til lífeyrisþeganna ekki það sem menn borguðu inn heldur vaxtatekjur. En þá gerist það að lífeyristekjurnar eru skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur en þeir sem eiga hins vegar fjármagn í banka og hafa ávaxtað það þar borga 10% skatt af sinni ávöxtun. Það er alveg hægt að færa rök fyrir því, herra forseti, að yfir 60% af útgreiðslum til lífeyrisþega eftir að hafa lagt fyrir alla ævina eru ávöxtunartekjur, ávöxtun af því fé sem þeir hafa smátt og smátt lagt inn í lífeyrissjóð og mikill minni hluti útgreiðslunnar, teknanna þegar þær eru greiddar út eru þá í raun og veru uppsöfnuð laun.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.