Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:31:45 (3851)

2003-02-13 15:31:45# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í tillögu þeirri sem við ræðum hér er lagt til að stærri hluti af lífeyrisgreiðslum úr lífeyrissjóði skerði ekki bætur almannatrygginga. Þetta er góð hugsun eins og vel flest en þetta ruglar kerfið vegna þess að við búum við þann vanda að eftir því sem við gerum lágmarksbætur almannatrygginga hærri, þá þarf að skerða greiðslur úr lífeyrissjóði meira nema við viljum upplifa þá stöðu að lífeyrisþegar sem eru með bætur úr almannatryggingum og lífeyrissjóði verði með hærri tekjur en meðan þeir voru að vinna. Það gengur ekki heldur vegna þess að þeir sem eru vinnandi borga bætur almannatrygginga beint með sköttum sínum. Og þá er verið að láta fólk með lægri ráðstöfunartekjur borga bætur til annars fólks sem er með hærri ráðstöfunartekjur. Þetta er sá vandi sem við stöndum alltaf frammi fyrir.

Ef við ætlum að fara að veita stærri hluta úr lífeyrissjóðunum til lífeyrisþega án skerðingar kemur upp sú staða að fólk, sérstaklega lágtekjufólk, verður með lægri tekjur en sambærilegir aðilar sem komnir eru á lífeyri og það gengur ekki upp. Það er mjög varasamt að rugga þessum báti mjög mikið. Það þarf að gera að mjög vel yfirveguðu máli og menn þurfa að hafa skoðað mjög nákvæmlega hvaða áhrif það hefur í þjóðfélaginu. Ég vil benda á að enda þótt meðallaun séu nokkuð rífleg í sumum stéttum, sérstaklega hjá sjómönnum, eru líka til aðrar stéttir sem eru með mjög lág laun. Það þekkjast laun 120--150 þús. kr. og ef menn eiga að geta fengið 40 þús. kr. úr lífeyrssjóði án skerðingar, þá eru þeir komnir upp í þau laun með lágmarksbótum almannatrygginga sem eru 93 þús. kr., lágmark til aðila, þannig að menn geta verið með 133 þús. kr. úr lífeyrissjóði og almannaryggingum án skerðingar þannig að þetta þarf dálítið að íhuga.

Það sem olli því að ég kom upp í ræðustól var síðasta athugasemd hv. þm. um að stór hluti af lífeyri væru verðbætur og vextir. Það er hárrétt. En það gleymist í því sambandi að iðgjöld í lífeyrissjóð hafa nánast alltaf verið frádráttarbær frá skatti. Iðgjöld atvinnurekenda, 6%, hafa ætíð verið frádráttarbær og iðgjöld launþega hafa nánast alltaf verið frádráttarbær nema á árunum 1989, ef ég man rétt, til 1997. Þá voru þau sett inn í sérstaklega háan persónuafslátt sem var hækkaður mjög mikið til þess að taka yfir m.a. iðgjöld í lífeyrissjóð þegar staðgreiðslan var tekin upp. Þetta hafði það í för með sér að maður sem lagði fyrir 10 þús. kr. af tekjum sínum í lífeyrissjóð fékk vexti og verðbætur á alla upphæðina. En annar maður sem keypti spariskírteini fyrir sömu upphæð hafði ekki nema 6 þús. kr. til ráðstöfunar eftir að hafa borgað 4 þús. kr. í skatt. Hann gat því ekki ávaxtað nema 6 þús. kr. og fær þá fjármuni, vexti og verðbætur. Síðan þegar kemur að töku lífeyris hjá þeim sem borgar í lífeyrissjóð, þá fær hann tíuþúsundkallinn plús vexti og verðbætur og er sem sagt búinn að fá vexti og verðbætur á það sem hann hefði greitt í skatt. Þetta leiðir til þess að hann er jafnvel betur settur hafandi borgað í lífeyrissjóð en hinn sem borgaði fyrst 40% af tekjunum í skatt og keypti síðan spariskírteini vegna þess að lífeyrissjóðirnir borga ekki fjármagnstekjuskatt en það munar ekkert mjög miklu, þetta er mjög svipað. Þetta er ekkert annað en frestun á skattlagningu. Og sú hugsun sem menn hafa verið að segja að 2/3 hlutar lífeyrisgreiðslna væru vextir og verðbætur og ættu að falla undir 10% skatt, er rökleysa og kemur auk þess aðallega hátekjulífeyrisþegum til góða. Þeir sem eru með kannski 200--300 þús. kr. í lífeyri, bankastjórar og slíkir, mundu njóta þess sérstaklega en aðrir sem eru nálægt skattleysismörkum mundu í engu njóta þess því þeir borga engan eða lítinn skatt.