Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:36:26 (3852)

2003-02-13 15:36:26# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara gera þá athugasemd að iðgjöld í lífeyrissjóð voru náttúrlega skattlögð á árum áður en hafa um nokkurra ára skeið verið frádráttarbær en því verður ekkert á móti mælt að megnið af lífeyristekjum, sem menn taka úr lífeyrissjóði mánaðarlega þegar þeir fara að taka lífeyri, eru tekjur sem hafa myndast af fjármagninu inni í sjóðunum. Þar af leiðandi væri eðlilegt að hluti lífeyrisgreiðslnanna, miðað við þær skattgreiðslur sem við erum með af fjármagni í dag, væri samræmdur við það.

Ef það er vandamál, herra forseti, að fólk geti haft tekjur upp á 130 þús. án þess að fara fyrst í jaðarskattagreiðslur eins og er núna því að viðbótargreiðslurnar skerða bæturnar eins og þetta er í dag og ég vona að hv. þm. hafi tekið þátt í því með okkur hinum hv. þm. í Alþingi að greiða því atkvæði að lækka þessa skerðingu úr 67% niður í 45% sem samið var um við eldri borgara á síðasta hausti. Ég er að færa rök fyrir því að óeðlilegt sé að láta skerðinguna virka og hún eigi ekki að virka á þessar lægstu greiðslur úr lífeyrissjóðunum.

Einnig er hægt að fara aðra leið í þessu máli og það er að hækka persónuafslátt og þá njóta allir sem hafa lægstar tekjurnar og ég vona að hv. þm. geti verið mér sammála um að það kæmi sér vel fyrir alla sem eru með lágar tekjur.