Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:38:40 (3853)

2003-02-13 15:38:40# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Alla tíð hafa iðgjöld launagreiðenda í lífeyrissjóð verið frádráttarbær frá skatti, frádráttarbær frá hagnaði fyrirtækja. Fyrirtæki hafa aldrei greitt skatt af iðgjaldinu í lífeyrissjóð, 6%, sem er stærsti hlutinn af greiðslum í lífeyrissjóð. Alla tíð nema frá árinu 1989 þegar staðgreiðsla var tekin upp til 1997 var hluti launþega í lífeyrissjóð frádráttarbær, alla tíð, þannig að menn hafa ekki borgað skatt af þeim tekjum sem geymdar eru í lífeyrissjóði. Það er frestun á skattlagningu. Lífeyrissjóðirnir fá þar með ávöxtun á skattinn sem menn hefðu greitt og það segir bara það að þegar menn síðan borga skatta, 40%, þá er það nákvæmlega það sama eins og ef þeir hefðu borgað skatt strax og ekki fengið vexti af þeim. Þessi hugsun er því ekki rökrétt.

Varðandi það að menn með 130 þús. fái óskertar bætur. Ég benti á að þá kæmi upp misræmi í kerfinu. Það er grundvallaratriði að menn eiga ekki að hafa betri bætur fyrir eitthvert tjón eða eitthvað sem þeir verða fyrir en þeir höfðu áður. Menn eiga ekki að hækka í launum við það að fá bætur úr almannatryggingum eða frá velferðarkerfinu miðað við það sem þeir höfðu í laun áður. Það er grundvallaratriði.

Það að hækka persónuafsláttin er stefna sem sumir vilja en svo eru aðrir sem halda því fram að það sé betra að fleiri taki þátt í að borga velferðarkerfið. Í flestum löndum eru skattleysismörkin miklu lægri en hérna. Það er í mjög fáum löndum sem heilar 70 þús. kr. eru skattfrjálsar.