Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:47:09 (3857)

2003-02-13 15:47:09# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf jafngaman að hlusta á menn sem eiga miklar draumsýnir. Menn segja að launin séu of lág. Af hverju í ósköpunum stofna mennirnir ekki fyrirtæki og borga há laun? Ég bara spyr. Ef það er svona auðvelt að borga há laun, af hverju gera þeir það ekki? Af hverju krefjast þeir ekki að fyrirtæki úti á landsbyggðinni sem eru að niðurlotum komin borgi hærri laun? Af hverju gera þeir alltaf þá kröfu á annað fólk að það borgi há laun? Af hverju stofna þeir ekki sjálfir fyrirtæki og borga há laun? Ég hef gert það. Það vill bara svo til.

Síðan segja þeir að enginn eigi að borga skatta, helst ekki. Í öðrum löndum, annars staðar á Norðurlöndum sem við horfum mikið til, eru teknir skattar af miklu lægri tekjum. Það eru miklu lægri skattleysismörk þar heldur en hérna. Það á sem sagt að hækka bætur, það á samtímis að lækka skatta og það á að hækka laun sem einhver önnur fyrirtæki eiga að borga heldur en þau sem eru að fara á hausinn. Þetta er bara draumsýn. Hv. þm. er í reynd að krefjast þess að það séu hækkaðir skattar á sjómenn, hækkaðir skattar á landverkafólk, hækkaðir skattar á fólk úti á landsbyggðinni, á Ísafirði, í frystihúsinu þar. Hann er að fara fram á það að hækka skatta til þess að bæta kjör fólks sem hefur borgað í lífeyrissjóð og er með lífeyrisbætur frá almannatryggingum, að þær verði ekki skertar. Dæmið snýst um þetta. Þetta er hinn bitri raunveruleiki. Það verður alltaf einhver að borga. Guð almáttugur borgar þetta ekki.