Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:50:21 (3859)

2003-02-13 15:50:21# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður nú að undanskilja mig því ég hirði ekki 40 þús. kallinn sem þingmenn fá almennt þannig að hann getur alla vega undanskilið mig frá þeirri tölu.

Það getur vel verið að það séu frádráttarliðir í skattkerfum Norðurlandanna. Það er engu að síður staðreynd að fólk borgar skatta af miklu lægri tekjum heldur en hér. Stefnan er sú að hinum almenna borgara er treyst til þess að standa undir velferðarkerfinu, almennt af öllum sínum tekjum. Mér finnst ákveðin lítilsvirðing að segja við einhvern mann að hann sé svo aumur, hann sé með svo lágar tekjur, að hann geti ekki borgað neitt til velferðarkerfisins. Það má þá lækka skattprósentuna og ég hef meira að segja lagt til að taka upp flatan tekjuskatt sem yrði miklu lægri en er í dag, 20%, en gæfi ríkissjóði og sveitarfélögum sömu tekjur. En þá mundu allir borga.

En við erum hérna að tala um --- það frv. sem við ræðum um --- þessar 40 þús. kr. sem eiga ekki að koma til frádráttar hjá almannatryggingum. Það er verið að tala um að hækka bætur, gott og vel. Þá hækkun þarf að borga. Það þýðir hærri skatta og ef við ætlum að fara að leggja hærri skatta á t.d. fólk sem er með 130 þús. kr. í tekjur, þá segir hv. þm. að þá eigi að hækka launin. Það þýðir að fleiri fyrirtæki fara á hausinn, væntanlega. Í dag var einmitt á dagskrá frv. um lágmarkslaun, 120 þús. kr. minnir mig. Það þýðir að fleiri fyrirtæki geta ekki borgað þau laun, fara á hausinn. Það þýðir atvinnuleysi. Er það það sem hv. þm. vill? Þetta er ekkert annað en draumsýn.